139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hyggst halda hér aðra ræðu, tel að mér sé það skylt sem framsögumanni málsins eða a.m.k. nefndarálits meiri hlutans. Ég vil bara segja til þess að forðast frekari misskilning að hvorki er um það að ræða að formaður og varaformaður sitji báðir í hinni fullskipuðu úrskurðarnefnd eins og hún verður mest né í hinni minnstu því að kerfið er þannig að varaformaður kemur sumsé ekki inn í nefndina nema þegar formaður er forfallaður. Að öðru leyti eru athugasemdir hv. þingmanns um þetta engin della. Það er alveg rétt að þetta er svolítið sérkennilegt skipulag en ég held samt að það sé ekki til mikils skaða.

Í öðru lagi, að umhverfismál séu velmegunarfyrirbæri, já, svo telur hv. þingmaður. Það má segja að undanfarna áratugi hafi það verið almenn skoðun að partur af því að vera ríkur sé að geta tekið til í garðinum hjá sér. Ég held að það sé rangt. Ég held að þetta sé þannig að atvinnulíf og umhverfismál megi ekki hvort án annars vera. Hv. þm. Pétur Blöndal rakti hvernig umhverfismál væru án atvinnulífs. Það er náttúrlega gjörsamlega óhugsandi, en atvinnulíf án umhverfistillits er líka gjörsamlega óhugsandi. Það eiga menn að vita og ekki að þræta fyrir eða tala dellu á landi eins og Íslandi með hefðir sínar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.