139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er alveg eðlilegt að menn fari villur vegar í þessu en þegar menn telja eru nefndarmennirnir sjö og varaformaðurinn kemur sumsé inn fyrir formanninn. Við erum vön því að í venjulegum nefndum eru formaður og varaformaður, t.d. í nefndum Alþingis, og að varaformaðurinn hafi fullan rétt, en svo er ekki þarna.

Um ræðu hv. þingmanns vil ég að auki segja að það er alveg rétt hjá honum og öðrum að kerfið er flókið og hefur verið að flækjast hér undanfarin ár, m.a. vegna þess að í umhverfismálum höfum við verið að taka við evrópskri löggjöf ofan í löggjöf sem við höfðum að einhverju leyti fyrir og það liggur fyrir að reyna að samræma þetta í framtíðinni.

Það sem gerist með þessum frumvörpum er að kerfið einfaldast að einu leyti. Það er rétt að menn geri sér grein fyrir því líka í umræðu um þetta mál að þær kærur sem nú fara í fyrsta lagi til úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál, í öðru lagi til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir og í þriðja lagi til þriggja ráðuneyta, umhverfisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og iðnaðarráðuneytis, fara nú allar á einn stað og þann stað er búið að útbúa þannig að hann geti verið liðugur. Auðvitað á reynslan eftir að leiða þetta í ljós, það getur vel verið að málið komi aftur til okkar. Sá staður getur verið liðugur, getur skipst í þrennt, í einn, þrjá og fimm menn, til að úrskurða um mál eftir vægi þeirra o.s.frv.

Svo vil ég sérstaklega fagna því, og það var ástæðan fyrir því að ég bað um þetta andsvar, að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hv. alþingismaður Pétur H. Blöndal, skyldi í þessari umræðu verða fyrstur manna, auk formanns umhverfisnefndar, kommúnistans Marðar Árnasonar, að tala um frelsi einstaklingsins því að það er það sem við erum að verja með actio popularis. Við erum að taka undir með Einari Benediktssyni um að nú sé að renna upp öld einliðans (Forseti hringir.) á Íslandi, virða rétt hans til viðhorfa og skoðana (Forseti hringir.) með íslenska hefð að baki.