139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef verið nokkuð upptekinn af þessu ákvæði um að allir geti kært allt — eða því sem næst, má bæta því við. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og skýringar á því fyrirbæri. Mig langar hins vegar að spyrja hann aðeins út í það sem hann nefndi áðan að dæmi úr íslenskum rétti væru nánast eingöngu eða eingöngu varðandi kosningar, hvort það sama eigi við um þau lönd sem við berum okkur helst saman við.

Það er vissulega hægt að taka ýkt dæmi um þann rétt að allir geti kært allt. Við sjáum það fyrir okkur að mörgum finnst nú þegar nægur tími fara í allt ferlið þegar fara þarf í framkvæmdir. Ég er þeirrar trúar að hægt sé að stytta þann tíma mikið án þess að fórna nokkru af þeim hagsmunum sem þarf að gæta að, þar á meðal og ekki síst þeim hagsmunum er varða mat á umhverfisáhrifum og þess háttar. Ég held að óhætt sé að fullyrða að hægt sé að stytta það ferli með einhverjum hætti. Hins vegar er ljóst að mínu viti að verið er að gera tillögur sem munu án efa lengja ferlið. Það held ég að geti haft mjög neikvæðar afleiðingar. Ég held að það sé ekkert jákvætt við þetta ákvæði í raun.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort nefndin hafi farið og fengið ábendingar um hvað efnislega væri jákvætt við að allir geti kært allt. Ég hygg að margir hafi gert athugasemdir við það sem er á móti því að þetta ákvæði sé inni.