139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kemur inn á tvo mikilvæga þætti í þessu sambandi. Annars vegar er um að ræða spurninguna um hvort málsmeðferðin á þessum sviðum sé ekki einfaldlega allt of þung í vöfum, allt of flókin, allt of tímafrek. Og eins og tekið er fram í nefndaráliti okkar hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar má áreiðanlega skýra að miklu leyti langan málsmeðferðartíma hjá úrskurðarnefndum með því að þeim hefur ekki verið tryggt fjármagn í samræmi við þau verkefni sem þeim er falið að sinna. Ég er viss um að það er stór hluti skýringarinnar og það er sú skýring sem hinir opinberu aðilar og úrskurðarnefndin og aðrir slíkir gefa á þeim allt of langa málsmeðferðartíma.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að sú breyting sem felst í frumvarpinu, meginbreytingin um að taka upp actio popularis, víkka út eða opna alveg fyrir kæruaðild, leiðir nær örugglega til þess að kærum mun fjölga, jafnvel til mikilla muna, og það mun líklega koma verulega niður á málsmeðferðartímanum. Ég held að að því leyti séum við að auka vandann með þessu frumvarpi.

Það er síðan önnur spurning hvort ekki þarf að taka til í þeim lagabálkum sem gilda á þessu sviði og við erum reyndar að afgreiða í gríð og erg á þessu þingi, og því síðasta, og reyna að samræma hluti betur, fara betur yfir ferla og átta sig á því hvort ekki sé hægt að einfalda þá ferla sem þeir aðilar sem vilja t.d. stofna til framkvæmda þurfa að ganga í gegnum áður en að framkvæmdum kemur.