139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson skilur mig alveg rétt þegar hann segir að rétt sé að mál fái vandaða meðferð, vandaða málefnalega meðferð, þ.e. að úrskurðarnefnd í þessu tilviki fari vandlega yfir lagarök, málsástæður og annað sem skiptir máli varðandi úrlausn kærumála á sviði umhverfis- og auðlindamála. Við viljum báðir, hygg ég, að niðurstaðan sé vönduð, málefnaleg og í samræmi við lög. En við hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson erum líka alveg örugglega sammála um að okkur finnst óeðlilegt að unnt sé að tefja fyrir, trufla eða eyðileggja einhverjar framkvæmdir sem eru í uppsiglingu einfaldlega með málaflækjum sem hafa ekkert með hið efnislega innihald að gera heldur snúast bara um það að tefja málið með því að kæra, kæra aftur, kæra á enn einu stiginu, fá sem flesta til að kæra eða eitthvað þess háttar. Ég tek eindregið undir það sjónarmið sem ég skildi á ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar.

Varðandi hitt málið er það svo að það þarf að fá niðurstöðu t.d. varðandi friðun á grundvelli náttúruverndarlaga og ýmis sérlög sem gilda á ýmsum sviðum hafa með einum eða öðrum hætti snertifleti við það sem þarna er að finna í frumvarpinu. Það var kannski einmitt það sem ég var að vísa til áðan að að mínu mati þarf að fara yfir þá lagabálka sem gilda á þessu sviði, (Forseti hringir.) samræma og einfalda ferla og þá þarf að hafa meira undir en einhver ein lög eða einn lagabálk hverju sinni. (Forseti hringir.) Það þarf að reyna að ná einhverri heildarmynd.