139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Það verður að segjast eins og er að þegar maður rifjar upp þetta frumvarp og les það aftur og oftar en maður var kannski búinn að gera eftir 1. umr., þá vakna fleiri spurningar en að einhverju sé svarað.

Við höfum frumvarpið, breytingartillögur og nefndarálit minni og meiri hluta og í þessari umræðu hefur aðallega verið rætt um tvennt, þ.e. nefndarskipan úrskurðarnefndarinnar ásamt því hverjir geta kært og hvar þeir geta kært.

Þær umsagnir sem ég náði að kíkja á og ég viðurkenni það, frú forseti, að ekki náði ég að lesa þær allar og ég gef mér að þær séu mismunandi og að það séu hagsmunaaðilar sem eru frumvarpinu fylgjandi eins og það stendur, en ég veit að það eru líka hagsmunaaðilar sem gjalda varhuga við frumvarpinu og einstökum greinum þess og eru jafnvel á móti þeim. (MÁ: Hverjir eru á móti?)

Í 1. gr. er fjallað — ég kem að því á eftir, hv. þingmaður — um hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og þar stendur að hlutverk hennar sé m.a., með leyfi forseta: „að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála“.

Ég velti áðan upp mjög einfaldri mynd, hún er kannski langsótt en hvað gera þeir sem eru á móti því þegar vernda á og friða staði, hvert leita þeir? Ég hugsa að það sé mikilvægt að til staðar sé úrskurðarnefnd. Ég er sammála því að það þarf að vera hægt að kæra eða leita til ákveðins aðila til að úrskurða í málum sem þessum. Um það deili ég ekki við þá sem standa að frumvarpinu. En það er hins vegar ýmislegt við útlistunina á framkvæmdinni sem lögð er fram sem ég geri athugasemdir við.

Í 2. gr. er talað um nefndarskipanina. Reyndar er gerð breytingartillaga af hálfu meiri hluta nefndarinnar og í 5. málslið er það orðið þannig að ráðherra skipar staðgengil sem er varaformaður formanns í staðinn fyrir að forstöðumaður ráði hann.

Það er svolítið sérstakt hvernig á að standa að nefndarskipaninni og ráðningum. Sá sem er forstöðumaður, eða hvað sem á að kalla það á endanum, hefur býsna mikil völd og val um hvernig starfsmenn eru skipaðir og valdir.

Síðan vekur athygli mína, ef ég skil þetta rétt, að ekki er lengur gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og iðnaðarráðherra eigi þarna inni menn þó svo að þarna sé verið að fjalla um auðlindir og umhverfismál.

Síðan er það 3. gr. um starfshætti. Þar er ljóst að forstöðumaður hefur yfirumsjón. Misjafnt er eftir því hvers konar mál er verið að fjalla um, viðamikið eða viðalítið, hvernig nefndin á að vera skipuð. Það er jafnvel lagt upp með það í frumvarpinu að formaðurinn geti úrskurðað þetta sjálfur ef nefndin samþykkir að þetta sé frekar lítið mál. Ég átta mig ekki á hvort það er þá fimm manna nefnd eða þriggja manna nefnd, sem val er um, sem getur ákveðið það. Væntanlega er það fimm manna nefndin. Ég geri ráð fyrir að það sé hugsunin í þessu.

Þá komum við að 4. gr. sem er um málsmeðferð og kæruaðild. Ég verð að segja að það kemur mér verulega á óvart hversu opin þessi kæruaðild getur verið. Mig langar að nefna það strax, af því að áðan var kallað fram í úr sal og spurt hver væri á móti þessu, að í áliti sem Samorka skilar inn er því mótmælt að þetta sé opið á þennan hátt.

Mér finnst það mjög sérstakt að útlendur eða erlendur aðili, við skulum nota það orð frekar, geti kært framkvæmdir hér á landi án þess að hafa nokkur tengsl eða nokkra hagsmuni af framkvæmdinni á einn eða annan hátt. Að ég geti bent kunningja mínum einhvers staðar suður á Spáni og Portúgal að hér sé um vonda framkvæmd að ræða og beðið hann að hjálpa mér um að senda inn kæru, (MÁ: Jafnvel hörundsdökkur.) mér finnst það mjög sérstakt. — Ég heyri ekki hvað hv. þingmaður er að kalla fram í.

(Forseti (ÁI): Forseti biður um að menn láti af tveggja manna tali í þingsal. Hv. ræðumaður hefur orðið.)

Afsakið, frú forseti, en ég missti af frammíkallinu.

Þetta finnst mér mjög óeðlilegt. Mér finnst líka óeðlilegt að einstaklingur sem á engra beinna hagsmuna að gæta, lögvarinna hagsmuna, geti blandað sér þannig í mál. Mér finnst það bara ekki rétt.

Við getum teiknað upp alls konar sviðsmyndir af því hvernig starfið í þessari nefnd verður í framhaldinu. Nú veit ég ekki hverjir muni sitja í þessari nefnd verði þetta að veruleika. (Gripið fram í: Jú, formaður.) Jú, ég veit reyndar hver formaðurinn er, það kemur fram þarna, en það er alveg á huldu hvernig nefndin mun starfa og hversu skilvirk hún verður og fer það vitanlega eftir umfanginu.

Við erum stundum gagnrýnd fyrir hversu langan tíma það tekur að fá hlutina samþykkta, hvort sem það er að fá staðfest aðalskipulag í umhverfisráðuneytinu eða eitthvað slíkt. Við höfum séð ráðherra beita sér af mikilli hörku í skipulagsmálum, svo ég nefni það sem dæmi, og þrátt fyrir álit dóma eða réttar þá er jafnvel lítið gert með það. Mér finnst, frú forseti, eins og hugmyndin á bak við það að setja inn þetta ákvæði, svo ég segi það bara hreint út, sé að koma með farveg þannig að þeir sem eru hvað harðastir gegn framkvæmdum hafi leið til að tefja og stoppa alla hluti. Ég held að það sé þannig.

Mér finnst það ekki gott ef svo er. Mér finnst það ekki gott vegna þeirra markmiða sem við eigum að hafa sem eru vitanlega tvö. Við eigum að sjálfsögðu að sjá til þess að hlutir geti gengið fram á Íslandi, að við getum farið í framkvæmdir, hvort sem það er til að nýta náttúruauðlindir eða annað. En við eigum að sjálfsögðu líka að gera það þannig að við berum virðingu fyrir náttúrunni, virðingu fyrir umhverfinu. Ég held að þetta sé röng leið til að styðja við þann málstað og af því hef ég áhyggjur. Ég held að þetta sé leið sem muni dýpka þá gjá sem oft er talað um að sé á milli þeirra sem vilja nýta auðlindir og þeirra sem vilja það ekki. Auðvitað tekur þetta frumvarp til miklu fleiri hluta en auðlinda, það er alveg ljóst. En ég vil orða þetta þannig og draga upp sem einfaldasta mynd; það er hvorugum málstaðnum til bóta ef leiðin verður þessi. Þetta verður að taka inn í myndina. Ég held að það sé miklu skynsamlegra að reyna að ná jafnvel víðtækari lendingu um hverjir geta haft aðkomu að málum, en að gera þetta svona er allt of stórt skref.

Ég hugsa t.d. að maður geti alveg fullyrt að það fari mjög eftir verkefni, eftir framkvæmd, eftir því hvað er á döfinni, í hvaða hóp maður telst vera. En þá er miklu betra og skynsamlegra að geta unnið eftir lögum eða í umhverfi sem er þokkaleg sátt um. Um þetta verður aldrei sátt, ég er alveg klár á því. Það er því mikilvægt að við skoðum þetta vel eftir 2. umr. og ég vona svo sannarlega að umhverfisnefnd taki málið aftur til umfjöllunar því að það getur einfaldlega ekki gengið þannig að allir geti verið aðilar máls. Það er algerlega galið, svo ég noti bara það orð.

Ég vil alls ekki að við gefum afslátt af kröfu varðandi umhverfisvernd og umgengni um auðlindir. Við megum ekki gera það. Við eigum að sjálfsögðu vera í fararbroddi þar. Við megum samt ekki hafa umgjörðina þannig að hægt sé að leika sér að því að koma í veg fyrir að jafnvel jákvæðir hlutir gerist, ef einhverjir fáir eru á móti þeim.

Í nefndaráliti minni hlutans sem er mjög samhljóða þeim málflutningi sem ég hef haft uppi, er m.a. komið inn á úrskurðarnefndina og hverjir skipa í hana og hverjir ekki. Eins er talað um almenna kæruaðild sem hefur verið til umræðu. Ég tel að í gegnum tíðina hafi það kerfi sem við erum með gengið ágætlega, þ.e. að ákveðnir aðilar sem skilgreindir eru sem svo að þeir hafi ákveðinna lögvarinna hagsmuna að gæta geti komið að málinu. Ég er, eins og ég sagði áðan, fús til að ræða einhverja útvíkkun á því en þetta er of langt gengið.

Ég verð að koma inn á eitt atriði sem er c-liður 4. gr., um ákvörðun um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar erfðabreyttra lífvera. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg búinn að átta mig á hvað þetta þýðir nákvæmlega en mér finnst mjög sérkennilegur sá tónn sem hefur verið út í það sem er erfðabreytt, að það eigi að banna, það sé hættulegt og slíkt. Ég hef miklar áhyggjur af því að öfgar í þessa átt eigi eftir að reynast okkur dýrkeyptar þegar við horfum til framtíðar. Við vitum að mjög er sótt að hefðbundinni framleiðslu á matvælum, hvort sem það er kjúklingar eða rautt kjöt eða fiskur, en ég hef áhyggjur af því ef líka er sótt að greinum þar sem reynt er að nota tæknina til að auka líkur á að mannkynið fái nóg að borða. Um þær gildir hið sama, það á ekki að gefa neina afslætti í umgengni við þessa tækni. Það eiga ekki heldur að vera neinar öfgar í hina áttina. Við þurfum að fara mjög varlega, ég er á því.

Það er töluvert mikil reynsla af þessu. Hún er eflaust bæði jákvæð og neikvæð eftir því hvernig menn nota erfðatæknina við framleiðslu á matvælum, á lyfjum og ýmsum vörum en við verðum að stíga varlega til jarðar því að flestar spár eða reyndar allar spár sem ég hef séð, ég ætla ekki að fullyrða að ég hafi séð allar spár, um matvælaþróun í framtíðinni gera ráð fyrir að innan 40 ára verði það mikill skortur á matvælum að frekar fáar þjóðir muni verða sjálfum sér nógar. Þar af leiðandi finnst mér að við verðum að passa okkur á því að dragast ekki aftur úr þegar verið er að finna nýja tækni og nýjar leiðir til að búa til matvæli, svo ég tali bara um matvæli. Auðvitað er tæknin og erfðabreytingar til ýmislegs annars. En það þarf að sjálfsögðu að gæta þess að með þeirri tækni eyðileggjum við ekki umhverfi okkar. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta, frú forseti, er að það er ekki svo langt síðan við vorum í umræðu um erfðabreyttar lífverur út frá útiræktun á erfðabreyttu korni og þess háttar.

Frú forseti. Það er ljóst að meiri og minni hluti nefndarinnar eru ekki sammála um innihald frumvarpsins. Það er ekki gott að mál sem þetta sé í miklu ósætti því hér er verið að setja grundvallarleikreglur sem betra væri að um ríkti víðtæk sátt. Þetta kann að spila inn í mál sem við verðum með í haust á þinginu sem er verndar- og nýtingaráætlun. Það er þegar búið að gera þá vinnu alla mjög pólitíska, sem kannski hlaut að koma að en er hins vegar mjög óheppilegt. Það hefði verið betra ef sérfræðingahópurinn og verkefnisstjórnin hefðu haft það hlutverk að klára málið alla leið en búið er að setja á það pólitískt fingrafar og á eftir að gera enn frekar. Meðan svo er munum við enn standa í deilum um hvað eigi að nýta og hvað ekki, hvaða reglur eða lög eigi að gilda, hverjir geti kært og hverjir geti ekki kært. Það verður því að segjast, frú forseti, að við göngum ekki þá leið sáttar og friðar sem mörg okkar vonuðust eftir að næðist með því að gera áætlun til verndar og nýtingar — sem ég kalla reyndar yfirleitt nýtingar- og verndaráætlun. Þetta frumvarp er heldur ekki til að skapa slíka sátt á nokkurn hátt.

Að mínu viti getum við ekki haft þetta eins og opinn tékka, ef orða má það svo, og aðilar erlendis eða Íslendingar sem hafa horn í síðu einhvers verkefnis geti gert sér það hreinlega að leik að tefja málið. Hætta er á því samkvæmt þessu frumvarpi. Það getur vel verið að við þurfum að bæta þetta umhverfi en ég held að við séum á rangri leið með þessu plaggi.