139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann segir að margt gott sé í frumvarpinu og ég tek undir það. En hann hefur hins vegar miklar efasemdir um það atriði að allir geti kært þó að þeir eigi engra hagsmuna að gæta og komi málið í raun ekkert við. Ég vil spyrja hann að því hvort það geti verið að menn hafi skotið yfir markið. Að menn hafi ætlað sér að hafa þetta þannig að menn gætu almennt séð komið með athugasemdir en ekki gætt að sér og skotið yfir markið og hætta sé á bakslagi í þessum umhverfismálum — þetta gæti þá á stuttum tíma snúist í andhverfu sína, menn gætu komið og sagt: Þetta gengur ekki, við skulum taka það alveg í burt.

Ég vil líka spyrja hann að því hvort hann hafi heyrt af svona reglum annars staðar. Ég heyrði að þetta væri svona í Portúgal en er þetta einsdæmi í Evrópusambandinu? Veit hv. þingmaður um það?

Svo er spurningin um bráðabirgðaákvæðið um manninn sem á að verða forstöðumaður. Það er sem sagt ákveðinn maður í þjóðfélaginu sem á að verða forstöðumaður, samkvæmt bráðabirgðaákvæði I, og hann verður þá jafnframt formaður. Það er búið að ákveða með lögum hver verður forstöðumaður og formaður nefndarinnar. Finnst hv. þingmanni það eðlilegt?

Ég vil svo spyrja hann hvort hann væri, með öðrum sem hafa efasemdir um þetta ákvæði, til í að koma með breytingartillögur og hreinlega taka þetta út; reyna að berjast gegn því að menn gangi svona langt, þ.e. að allir geti kært hvaða framkvæmdir sem er án þess að eiga hagsmuna að gæta.