139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[19:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sem kannski vanti í þetta sé að menn nálgist þetta þannig að það sé skilvirkt. Þetta er mjög víðfeðmt núna, t.d. ef færa á flugvöllinn og ekki eru til umhverfissamtök til að kæra það þá geta menn bara stofnað þau. Það er tiltölulega lítil hindrun í því. En að ætla að gera það sem er fordæmalítið, nær fordæmalaust í íslenskum lögum, að það geti bara allir kært án þess að hafa lögvarða hagsmuni eða vera í umhverfissamtökum, ég átta mig ekki alveg á hvað vinnst með því. Hv. þingmaður nefndi olíuvinnslu. Er eitthvað unnið með því að öll Evrópa geti kært slíka hluti sem við vorum að samþykkja rétt áðan eða í dag? (Gripið fram í.) Hvað er unnið með því? (Gripið fram í.)

Hér kallar hv. þm. Mörður Árnason: Allt mannkyn. Menn ætla kannski að takmarka sig þar, þannig að ef til eru verur á öðrum hnöttum eru þær væntanlega undanskildar. (PHB: En dýr?) Já, og kannski dýrin líka.

Virðulegi forseti. Mér finnst algjörlega vanta í þetta þá nálgun sem er: Hvernig ætla menn að taka á þeim vanda sem er augljóslega núna? Og ég veit að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur örugglega heyrt dæmi um það (Forseti hringir.) og það er að þetta tekur gríðarlega langan tíma og það kerfi sem er til staðar er óskilvirkt.