139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

orð forseta Íslands um Icesave.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Um helgina lét forseti Íslands þau orð falla að íslensk stjórnvöld hefðu með gerð fyrsta Icesave-samningsins látið undan þrýstingi, beygt sig undir ofbeldi Breta og Hollendinga og samþykkt óheyrilegan samning sem hafi verið svo slæmur að ekki einungis íslenska þjóðin hafi flautað hann af heldur hafi Bretar og Hollendingar sjálfir, áður en fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram, hlaupið frá kröfum sínum í málinu. Þetta hlýtur að kalla á viðbrögð frá ríkisstjórninni og ég kalla eftir þeim frá hæstv. fjármálaráðherra sem fór fyrir ríkisstjórninni í málinu og þá ekki síst þessum fyrsta Icesave-samningi.

Þetta minnir okkur líka á að fyrir þinginu liggur tillaga til þingsályktunar um að framkvæma rannsókn á Icesave-málinu, rannsókn á því hvort fylgt hafi verið eftir lagareglum, hvort menn hafi brotið starfsskyldur sínar eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir íslenska ríkið og íslensku þjóðina. Það væri þá jafnframt hlutverk þeirrar rannsóknarnefndar sem þannig væri komið á fót að fjalla um það hverjir bæru eftir atvikum ábyrgð á því.

Þessi þingsályktunartillaga hefur legið frammi allt þetta þing. Hún er enn þá óafgreidd og ég kalla eftir viðbrögðum frá hæstv. fjármálaráðherra við því hvort ekki sé rétt, í ljósi þessara ummæla forsetans, til að hreinsa borðið, til að komast til einhvers botns í þessu blessaða ólánsmáli, að láta einfaldlega fara fram rannsókn á borð við þá sem hér hefur verið gerð tillaga um þar sem þrír óháðir rannsóknaraðilar fara yfir málið skref fyrir skref.