139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

orð forseta Íslands um Icesave.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það gildi svipað um sögulega greiningu og uppgjör þessa Icesave-máls og um ummæli helgarinnar að það er fullsnemmt að krýna sig sjálfskipaða sigurvegara í máli sem ekki er til lykta leitt. Málinu er ekki lokið. Kannski er hyggilegast að reyna að komast til botns í því og klára það og við skulum öll vona að það verði okkur sem útlátaminnst að lokum.

Að öðru leyti, frú forseti, ætla ég ekki úr þessum ræðustóli að leggja það á þing eða þjóð að munnhöggvast við forseta Íslands. Ég vísa til 1. mgr. 11. gr. stjórnarskrárinnar, samanber líka 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Það er mitt svar.