139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

orð forseta Íslands um Icesave.

[10:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er boðinn og búinn að ræða um Icesave-málið á Alþingi og svara fyrir það eða útskýra stöðu þess að því marki sem það er nú í mínum höndum. Reyndar hefur efnahags- og viðskiptaráðherra það hlutverk að rækta samskiptin við Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins þar sem málið er í rannsókn eins og kunnugt er. Innan fárra daga geri ég ráð fyrir að við þurfum að bregðast þar við með svari og ef við föllumst ekki á hið rökstudda álit þarf að koma þeim skilaboðum á framfæri. Ég geri ráð fyrir að það væri vandasamt að fallast á það vegna þess að ég held að um það væri ekki samstaða, auk þess sem þá má leggja þann skilning í að við ættum að reiða fram 670 milljarða fyrir 10. september og ég er ekki með þá á mér.