139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

uppbygging fangelsismála.

[10:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að taka undir þá ósk sem fram kom hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að það sé eðlilegt og skynsamlegt að rannsaka Icesave-málið frá grunni, eins sérkennilegt og það allt var.

Ég kem hingað til að ræða við hæstv. innanríkisráðherra um uppbyggingu fangelsismála. Þann 8. nóvember 2010 var umræða í þinginu við hæstv. ráðherra vegna þeirra frétta að þá væri dönsk arkitektastofa að hanna fangelsi á Hólmsheiði. Í þeirri umræðu upplýsti ráðherrann að nú ætti að fara fram einhvers konar opinber samkeppni milli byggðarlaga þar sem önnur byggðarlög gætu komið fram með sínar tillögur. Ég vitna orðrétt í hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Hvar hagkvæmast er síðan að reisa fangelsið og reka ræðst af þeim tilboðum sem fram kunna að koma.“ „Þetta er ekkert óeðlilegt,“ bætti ráðherrann síðan við.

Ég var á fundi með hæstv. ráðherra og fleiri aðilum, bæjarstjórn Árborgar og íbúum á Eyrarbakka, í síðustu viku þar sem kom fram í máli ráðherrans að búið væri að taka ákvörðun um að byggja þetta öryggis- og gæsluvarðhaldsfangelsi á Hólmsheiði og því langar mig að vita hver hafi tekið ákvörðun um að það skyldi verða opinber samkeppni milli byggðarlaga. Hvar endaði hún? Vann Reykjavíkurborg með Hólmsheiði og töpuðu þá önnur sveitarfélög þessari hagkvæmnissamkeppni?

Síðan langar mig einnig að vita í hverju þessi hagkvæmni felst. Það hefur komið fram að lagðar hafi verið fram skýrslur um uppbyggingu fangelsismála, til að mynda við viðbyggingu á Litla-Hrauni sem hefur verið sýnt fram á að sé mjög hagkvæm, mun ódýrari, (Forseti hringir.) og nú langar mig hreinlega að hæstv. ráðherra upplýsi þingheim um hvernig þessu máli sé háttað í raun.