139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

uppbygging fangelsismála.

[10:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kominn út í aðra sálma sem aðrir koma eflaust til með að svara fyrir. Sannast sagna hefði ég kosið að þingmaðurinn hefði látið sitja við það að beina til mín þeirri skriflegu erindagjörð sem liggur núna fyrir þinginu. Það er óvenjulegt að taka það líka upp í óundirbúinni fyrirspurn en, gott og vel, þetta er ágæt umræða og mikilvæg.

Það er rétt hjá hv. þingmanni. Hafi hann verið á þeirri skoðun að það væri óheppilegt að láta byggðarlög keppa sín í milli en ekki ég í nóvember í fyrra er ég kominn á sveif með hv. þingmanni og hef breytt um skoðun hvað þetta snertir. Ég tel að við séum að gera rétt með því að reisa nýtt fangelsi á Hólmsheiði í Reykjavík. Því nær sem fangelsið er dómstólunum á höfuðborgarsvæðinu, því hagkvæmara og styttri vegalengdir. Ég get látið hv. þingmann og þess vegna alla þá sem vilja sjá fá aðgang (Forseti hringir.) að þeim gögnum sem byggt er á og þeim hagkvæmnisútreikningum.