139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

ályktanir VG í garð ráðherra Samfylkingarinnar.

[10:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Tvær nýlegar ályktanir flokksstofnana Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í garð ráðherra samstarfsflokksins, Samfylkingarinnar, hafa vakið mjög mikla athygli. Í fyrsta lagi er þar um að ræða ályktun þingflokks Vinstri grænna þar sem þingflokkurinn gagnrýnir hæstv. iðnaðarráðherra harðlega fyrir að setja stjórn Byggðastofnunar af og skipa nýja í hennar stað.

Önnur ályktun, og í annan stað, er þar um að ræða ályktun flokksráðs Vinstri grænna um loftárásir á Líbíu. Í þeirri ályktun eru árásirnar fordæmdar og flokksráðið leggur til að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda þess að íslensk stjórnvöld samþykktu að ráðist yrði í þessar hernaðaraðgerðir. Þessar tvær yfirlýsingar flokksstofnana Vinstri grænna eru auðvitað fordæmislausar hjá íslenskum stjórnvöldum í garð samstarfsflokks. Það er ekki hægt að túlka þær öðruvísi en sem grímulausa gagnrýni Vinstri grænna í garð hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar og ég leyfi mér að halda því fram að í þeim felist yfirlýsing um vantraust þessara tveggja lykilstofnana Vinstri grænna á hendur hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég spyr í framhaldi af þessu hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðji efni þessara ályktana. Er hann sammála þeim? Tók hann þátt í afgreiðslu þeirra? Styðja aðrir ráðherrar efni þessara ályktana og ætla þeir að fylgja þeim eftir með einhverjum hætti? Þá hvernig?