139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

ályktanir VG í garð ráðherra Samfylkingarinnar.

[10:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að félagar okkar í Samfylkingunni séu í sjálfu sér alveg fullfærir um það, eftir því sem þeir kjósa, að bregðast við en örugglega eru menn þar á bæ mjög þakklátir hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir hjálpsemina. Hann tekur málið hér upp fyrir þeirra hönd.

Varðandi þessar ályktanir voru í fyrra laginu skiptar skoðanir um breytingarnar á Byggðastofnun. Af okkar hálfu lá fyrir fyrirvari við það frumvarp og þar á meðal það hvernig stjórnskipulegu fyrirkomulagi byggðamálanna yrði háttað. Það þurfti því ekki að koma á óvart. Í öðru lagi var þarna verið að lýsa yfir trausti á okkar ágætu fulltrúa sem sátu í stjórn því að við vildum ekki að það færi á milli mála að þeir hefðu notið okkar fyllsta trausts.

Varðandi loftárásirnar á Líbíu er ljóst að við vorum ekki fylgjandi þeim. Við lögðumst gegn því að NATO tæki þar við stjórn mála og við teljum að í vissum tilvikum hafi menn farið út fyrir það umboð sem eðlilegt sé miðað við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega þegar kemur að loftárásum á borgaraleg skotmörk. Þarna er verið að lýsa ákveðinni afstöðu til hluta sem á ekki að þurfa að koma mönnum neitt á óvart. Ég held að það sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af stjórnarsamstarfinu í þessum efnum, en ég skil hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson þannig að hann hafi farið að hafa áhyggjur af heilsufari ríkisstjórnarinnar vegna þessara ályktana. Ég held sem sagt að það sé óþarft.