139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

tollar á búvörum.

[10:57]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ákvörðun tollanna í þessu tilviki er ekki á mínu borði, eins og hv. þingmaður veit, en undir mig heyra verslun og viðskipti og málefni þeim tengd. Því horfum við til þess með hvaða hætti rétt sé að beita heimildum eins og þeim sem um ræðir í þessu tilviki.

Ég tel það augljóslega ekki þannig að alþjóðasamningar á sviði aukins viðskiptafrelsis nái takmarki sínu ef tollkvótum er beitt með þeim hætti að varan verður dýrari en ella ef hún er flutt inn á tollkvótunum. Þá er beinlínis verið að tryggja að alþjóðasamningar um aukið viðskiptafrelsi og markaðsaðgang nái ekki tilgangi sínum og það getur ekki verið markmið samninganna.

Nú geta menn sagt að það sé sjálfstætt markmið fyrir Íslendinga að loka landinu fyrir innflutningi á einhverjum tilteknum vörum. En þá verða menn að hafa í huga að það hefur í för með sér tjón fyrir íslenskt samfélag og útflytjendur í sömu grein. Við horfum núna á ný tækifæri opnast í útflutningi á íslenskum landbúnaði. Við horfum á möguleika á því að íslensk vistvæn landbúnaðarframleiðsla geti sótt sér afl og þrótt með útflutningi á erlenda markaði. Til þess þarf hún aðgang að mörkuðum. Til þess þarf hún útflutningsmarkaði. Þess vegna er það afskaplega vanhugsað að túlka ákvæði í milliríkjasamningum um markaðsaðgang þannig að íslensk landbúnaðarframleiðsla fái ekki notið þess vaxtarsprota sem ætti að felast í betri markaðsaðgangi. Ég held þess vegna að það sé mikilvægt að horfa ferskum augum á þessi mál og Alþingi verður auðvitað að láta þau svo til sín taka að það séu fullnægjandi og réttar lagaheimildir fyrir álagningu tollanna eins og umboðsmaður Alþingis hefur vakið athygli á. Það er rétt að fara yfir það í framhaldinu.