139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

endurskoðun laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

[11:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og tek undir með henni um að löggjöfin frá árinu 1998 er ekki góð. Þetta er vond löggjöf að mínu mati að því leyti að þar er eignarhald á grunnvatni beinlínis sett í einkaeigu þannig að grunnvatnið var einkavætt hér árið 1998, illu heilli.

Við höfum hins vegar náð ágætissamstöðu um að fara heldur þá leið sem farin var í vatnalögunum frá 1923, þ.e. að fara ekki einkaeignarleiðina þegar kemur að eignarhaldi á vatni heldur verði áfram farin sú leið að telja frekar upp hvernig nýta megi vatn sem tilheyrir ákveðnum landsvæðum. Eins og segir í greinargerð með breytingum á frumvarpi á vatnalögunum sem liggur fyrir þinginu erum við nú farin af stað með þá vinnu, í samræmi við stefnumótun beggja stjórnarflokkanna, að endurskoða lögin frá árinu 1998. Sú vinna hefur verið í undirbúningi í einhverja mánuði en er nú farin formlega af stað. Við höfum beðið hæstaréttarlögmanninn Ástráð Haraldsson að leiða þá vinnu, þ.e. að fara í gegnum hvernig við getum undið ofan af þeirri einkavæðingu sem átti sér stað og gætt þess að samræmi verði í löggjöf um vatn og auðlindir hér á landi.

Það er mjög mikilvæg vinna fram undan. Það þarf að teikna upp þær myndir sem geta blasað við okkur í þessum efnum, hvað þetta getur kostað okkur, hvaða leiðir best er að fara. Það er von mín að niðurstöður þeirrar vinnu geti legið fyrir upp úr áramótum eða á fyrri hluta næsta árs. Þá er það í höndum þingsins að fara vandlega í gegnum það allt saman og taka ákvörðun um hvernig við náum þeim markmiðum (Forseti hringir.) að samræma löggjöf á sviði vatnamála og eins að fara í gegnum ákvæði tillagna stjórnlagaráðs þar sem skýrt er kveðið á um að auðlindir skuli vera í eigu þjóðarinnar.