139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

endurskoðun laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

[11:07]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við þurfum að styrkja almannaréttinn enn frekar. Við ætlum að styrkja varðstöðuna um auðlindir í eigu þjóðarinnar í öllum breytingum á löggjöf er varða auðlindir. Núna fáum við aldeilis liðsstyrk í því efni í tillögum stjórnlagaráðs þar sem það skiptir gríðarlegu máli hvernig fjallað er um auðlindirnar í stjórnarskránni og það er sannarlega mikilvægt.

Það skiptir líka máli að við ljúkum þeim leiðangri að reyna að samræma löggjöf á sviði auðlindamála og það sé heildstæð auðlindastefna í þessu landi. Það er verkefni þessarar ríkisstjórnar að tryggja varðstöðu um allar auðlindir, ekki bara vatn heldur líka fiskinn í sjónum og aðrar auðlindir sem máli skipta, og tryggja að þær séu í eigu þjóðarinnar eins og þeim ber.