139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

895. mál
[11:13]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Líkt og framsögumaður menntamálanefndar sagði rétt áðan er þetta frumvarp ekki mikið í sniðum en það er afar mikilvægt engu að síður. Það er í rauninni tvíþætt: Annars vegar þurfum við að horfa til þess að þeir sem ekki sóttu um leyfisbréf innan tilskilinna tímamarka fái frest til að gera það enda hafi þeir lokið menntuninni og uppfylli öll skilyrði en sóttu ekki um leyfisbréf tímanlega. Hins vegar þurfum við líta til þeirra sem ekki gátu af einhverjum orsökum, vegna veikinda, fjölskylduaðstæðna eða annars, klárað námið eða eiga mjög lítið eftir af náminu. Við þurfum að kanna hvort við getum ekki komið til móts við þann hóp með því að rýmka tímafrestinn. Það er hins vegar spurning hvort ekki þurfi að ræða það betur í nefndinni vegna þess að við gerum ráð fyrir dagsetningunni 1. janúar 2012 í frumvarpinu en nú er búið að loka fyrir skráningu í háskólanám þannig að þeir sem ekki vissu af því að við hefðum í hyggju að skoða þetta eru þegar orðnir of seinir til að sækja um nám. Þeir munu þar af leiðandi ekki ná að ljúka námi fyrir 1. janúar 2012, þeir munu aldrei geta klárað það samkvæmt þessum lögum. Því tek ég undir með hv. þm. Skúla Helgasyni um að við setjum málið aftur í nefnd og skoðum það nánar.