139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

895. mál
[11:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil aðeins tjá mig um þetta frumvarp frá hæstv. menntamálanefnd en ekki síður bakgrunninn varðandi breytingar á kennaramenntun. Mér þætti ágætt ef ég gæti síðan fengið viðhorf til að mynda hv. þm. Skúla Helgasonar, formanns nefndarinnar, til þeirra atriða sem ég ætla rétt að koma inn á.

Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við þessa breytingu. Ég held að þetta sé skiljanleg breyting. Þetta er tæknileg breyting. Við þekkjum það sem erum á þingi að við sjáum ekki alltaf allt fyrir. Ekki er um stóran hóp að ræða sem hóf nám sitt samkvæmt gamla fyrirkomulaginu. Það er eðlilegt að koma til móts við ákveðin tilvik. Það verður þó að gera með þeim fyrirvara að það teygist ekki von úr viti því að allir flokkar á þinginu 2008 sammæltust um að efla þyrfti kennaramenntun og styrkja. Að mínu mati og ég hef sagt það áður er eitt mikilvægasta verkefni Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri hvernig þeir móta kennaramenntun innan þess nýja ramma sem hefur verið skipaður, þ.e. innan fimm ára. Ég held að það sé m.a. hlutverk hv. menntamálanefndar að fara yfir það hvernig háskólamenntastofnanir móta kennaramenntun. Ég held að það sé eitt mikilvægasta verkefnið innan skólakerfisins hvernig við sjáum kennaramenntun til lengri tíma.

Ég vil líka draga aðeins inn í umræðuna að nú hefur sem betur fer verið samið við leikskólakennara. Það er margt sem væri hægt að segja um þá rimmu alla en ég vil segja það eitt að ég fagna því að samningar hafa tekist. Ég held að ákveðinnar framsýni hafi gætt af hálfu kennaraforustunnar, þ.e. formanns leikskólakennara, og þeirra sem síðan sömdu og komu til móts við leikskólakennara og hlustuðu á þá kröfu að horfa þyrfti til grunnskólakennara. Af hverju segi ég það? Af því að þegar við breyttum kennaramenntuninni og breyttum skólakerfinu á öllum skólastigum, í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, varð grundvallarbreyting hér 2008. Þá var haft í huga að við ætluðum að efla iðn- og starfsnám, sú meginbreytingin fólst í regluverkinu. Síðan verða náttúrlega menntamálayfirvöld að fylgja breytingunum eftir. Það eru öll tæki komin þannig að þeim verður að fylgja eftir. Ekki síður sammæltumst við á þingi um að skólastigið frá leikskóla til framhaldsskóla yrði eitt skólaumhverfi, þ.e. að kennarar á grunnskólastigi gætu líka kennt á efstu stigum leikskóla og öfugt og það sama gilti um framhaldsskóla og grunnskóla, þannig að samfellan þar á milli sem við vorum alltaf að sækjast eftir yrði til.

Við tökum tillit til mismunandi þarfa einstaklinga innan skólakerfisins og þeir eru mjög misjafnir. Sumir þurfa á meiri aðstoð að halda, aðrir þurfa á ákveðnum ramma að halda en þurfa síðan að fá svigrúm til að nýta eigin getu og hæfni og sköpun. Þetta verður skólakerfið að búa til og byggja upp.

Þess vegna skiptir máli að menn nálgist ekki kröfur eins og leikskólakennara af þeirri þröngsýni sem sumir hverjir gerðu. Ég ætla ekki að segja að það sem sumir létu frá sér fara varðandi leikskólakennara og kennaramenntun þeirra hafi verið hér innan húss. Sumir töldu að leikskólakennarar væru bara að passa börn og búið, en það er síður en svo. Það eru nefnilega mikil tækifæri fólgin í því hvaða starf er innleitt og framfylgt innan leikskólans. Það er hægt að ná svo miklu fram með þeirri sköpun og hæfni sem krakkarnir okkar hafa yfir að ráða alveg frá því þau byrja í leikskóla.

Ég fagna öllu framtaki eins og því sem hefur verið í Mosfellsbæ fyrst hv. þingmaður Mosfellinga, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, er í salnum. Ég fagna sérstaklega því framtaki þar er varðar Krikaskóla, að brjóta upp kerfið og vera með skóla frá eins til níu ára innan sveitarfélagsins. Það er valkostur. Það er einmitt þetta sem við verðum að stuðla að innan skólakerfisins. Við verðum að stuðla að valkostum fyrir foreldra sem oft og tíðum standa frammi fyrir því með mismunandi einstaklinga, sem börnin þeirra eru, hvaða leiðir eigi að velja. Við megum ekki fara út í það að takmarka val barna og val foreldra þegar þeir reyna að velja fyrir hönd barnanna sinna hvaða leiðir eru bestar. Þess vegna skiptir máli að það sé fjölbreytni í skólakerfinu.

Fjölbreytni tengist kennaramenntun, að við búum og byggjum upp kennaramenntun og við sammælumst um að byggja upp kennaramenntun á heimsmælikvarða. Okkur hefur tekist ágætlega til, en við ætlum að gera betur. Það er þannig. Við sjáum það á flestum mælikvörðum að við höfum gert ágætlega en við getum gert mun betur á ákveðnum sviðum. Til þess þarf kennaraforustan að hafa ákveðið hugrekki. Ég fagna því sérstaklega að ég sá glitta í hugrekki hjá formanni Félags leikskólakennara, að hugsa málin upp á nýtt, fara fram á og setja fram þær kröfur sem voru eðlilegar í ljósi þeirra nýju lagareglna sem gilda um kennaramenntun og skólakerfið. Við verðum ekki síður að nálgast þetta með þeim hætti að allir hafi eitthvað að segja varðandi skólakerfið, ekki bara kennaraforustan ein og ekki bara sveitarfélögin. Þeirra krafa er skiljanleg, að þau þurfi að hafa aukið svigrúm varðandi rekstur grunnskóla til að geta boðið upp á bestu menntun innan kerfisins sem hægt er. Við verðum að hafa aukið frelsi og svigrúm innan skólakerfisins. Þar er breytt og öflugri kennaramenntun nauðsynleg.

Ég tel mikilvægt að hv. menntamálanefnd fari m.a. yfir hvaða leið menntavísindasvið Háskóla Íslands fer í þróun kennaramenntunar. Ég tel að menntamálanefnd og þingið eigi að hafa skoðun á því án þess að það trufli hið akademíska frelsi Háskóla Íslands eða Háskólans á Akureyri hvert við stefnum með kennaramenntun. Ég tel að sveitarfélögin eigi að hafa skoðun á því og að sjálfsögðu hefur Kennarasambandið haft ákveðnar skoðanir á því í gegnum tíðina. Við áttum ágætt samstarf á sínum tíma varðandi það hvernig við vildum sjá kennaramenntun þróast. Við litum mjög stíft til Finnlands sem gerði kennaramenntun að fimm ára námi.

Um leið og við erum með digrar yfirlýsingar um að auka sveigjanleikann í kerfinu, auka sveigjanleikann á milli skólastiga og gera flæðið á milli betra þá verðum við að þora að taka skrefið til fulls og segja: Leikskólakennaramenntun er fullgild kennaramenntun — en ekki tala niður leikskólakennaramenntun eins og mér fannst sumir gera í kringum leikskólakennaradeiluna sem hefur sem betur fer, eins og ég sagði áðan, verið leyst.

Núna liggja ákveðin tækifæri á borði menntamálayfirvalda, hjá þinginu en ekki síður hjá ráðuneytum menntamála og sveitarfélögunum, að fylgja eftir því sem var samþykkt á þingi en við höfum ekki fengið að sjá verða að veruleika. Það er hægt að skýla sér á bak við hrunið. En við eigum að þora að forgangsraða í þágu menntunar barna okkar og þora að vona þrátt fyrir þessa ríkisstjórn að við komumst út úr þeirri kreppu sem við erum í fyrr en síðar. Við verðum að búa þannig um hnútana að við séum búin að koma menntakerfinu á það stig og á það ról að við getum uppfyllt þær kröfur sem við sem foreldrar og þingmenn í samfélagi gerum til menntakerfisins. Þess vegna verðum við að hlúa að kennaramenntun.

Sú breyting sem við ræðum er eðlileg en það er ekki hægt að veita svigrúm í tíma út í hið óendanlega. Ég vara við því. Það verður hins vegar að taka tillit til þeirra tæknilegu örðugleika sem hafa fylgt þessari breytingu og koma til móts við þá einstaklinga sem hófu kennaranám, ætla sér að ljúka því og hafa sett upp skipulag og plan til þess en óvænt tilvik og atvik hafa leitt til þess, eins og sjúkdómar og veikindi, að þeir hafa ekki náð að klára á tilsettum tíma. Þetta er sanngirnismál. Ég tek undir það sem segir í ályktun frá hv. menntamálanefnd.

Þetta er bara angi af því stóra máli sem við erum að tala um og er þróun menntakerfisins. Þetta vildi ég sagt hafa og beina þeim vinsamlegu tilmælum til hv. þm. Skúla Helgasonar, formanns nefndarinnar, að menn fylgi því eftir hvert við stefnum með menntun kennara. Það felast í þessu ótrúleg tækifæri. Við erum komin með lagaumhverfi sem getur boðið upp á sveigjanleika. Nýtum sveigjanleikann, búum til valkosti en fækkum þeim ekki.

Við getum tekið ákveðna pólitíska slagi varðandi þær vanhugsuðu breytingar sem hafa orðið á framhaldsskólum, hvernig valfrelsið hefur verið takmarkað þegar menn sækja um framhaldsskóla. Valfrelsið hefur verið takmarkað á þá lund að landið er ekki lengur eitt framhaldsskólasvæði eins og það var. Gott og blessað. Þá umræðu getum við tekið einhvern tímann síðar. Ég tel mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvert kennaramenntun og þróun hennar leiðir samfélagið. Tækifærin til þess að byggja upp eitt besta menntakerfi sem völ er á eru til staðar. Við erum á góðri leið en getum gert betur.