139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

895. mál
[11:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa talað. Þetta frumvarp tengist fyrst og síðast tæknilegum breytingum. Við erum ekki að hverfa frá lögum frá 2008 um breytingu á kennaramenntun eða gera tilraun til þess að draga úr því sem þá var samþykkt. Þetta er fyrst og síðast tæknileg breyting til handa þeim sem hófu kennaranám fyrir 1. júlí 2008.

Mig langar hins vegar, frú forseti, sem fulltrúi í menntamálanefnd að taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að það skipti máli að menntamálanefnd þingsins fylgist með og hafi skoðun á því hvert kennaramenntun í háskólum landsins stefnir. Ég er eilítið hugsi yfir því hverra stefnumótunin er þegar kemur að þeim grundvallarbreytingum sem fram hafa verið lagðar í frumvarpi um að lengja námið án þess að þar sé með nokkrum hætti tekið á akademískum þáttum. Á stefnumótunin hvað varðar breytingu á kennaramenntun eingöngu að vera í höndum þeirra sem í háskólunum starfa? Eiga kennarasamtök, sveitarfélög og hinn almenni borgari að koma þar að? Með hvaða hætti ætlum við að móta stefnu um breytta kennaramenntun? Til hvaða landa ætlum við að horfa? Til hvaða krafna ætlum við að horfa? Hvar eru þær gerðar? Hvers vegna hafa þær verið settar o.s.frv.?

Þetta er áskorun, ekki bara fyrir hið akademíska samfélag heldur fyrir samfélagið í heild. Það er áskorun fyrir menntamálanefnd og þingmenn að fylgjast með, taka þátt í og hafa kjark til að hafa skoðun á því í hvaða veru við sem samfélag viljum haga kennaramenntun í landinu, hvers vegna og hvernig.

Ég er líka þeirrar skoðunar, frú forseti, og ég held að samhliða því að fara í stefnumótun um breytta kennaramenntun eigi löggjafinn verulega að íhuga að færa verkefni framhaldsskólans frá ríki til sveitarfélaga. Þannig munum við geta horft í heild á skólastigin þrjú, leik-, grunn- og framhaldsskóla, ekki bara sem þrjú stig heldur sem heildarsamfellu í námi barnanna okkar. Það er þá sveitarfélaganna að sjá til þess hvernig þau haga þeirri samfellu.

Við samþykktum hér ekkert alls fyrir löngu að nemendur í grunnskóla gætu tekið framhaldsskólaáfanga. Það er misjafnt hvernig brugðist er við eftir því hvort um er að ræða bekkjarskóla eða áfangaskóla. Væri framhaldsskólinn á hendi sveitarfélaganna væri það heildstætt viðhorf sveitarfélaganna til þessara þriggja skólastiga hvernig við sæjum flæðið þarna á milli til handa nemendum á hvaða sviði sem er. Okkur hefur oftar en ekki verið tíðrætt um að þeir sem hafa verið kallaðir „bráðgerir á bókina“ eigi að fá að hafa frelsi til hraðans, en hinir sem eru bráðgerir til handa og eru listfengir hafa ekki haft tækifæri til sama hraða.

Ég held að við ættum að ræða og íhuga hverra er að móta stefnuna í nýrri kennaramenntun, hvernig við viljum koma að því sem menntamálanefnd þingsins og sem þingmenn að hafa áhrif þar á. Ég held líka að það hljóti að vera umhugsunarefni ef það reynist rétt að búið sé að loka fyrir háskólanám skólaveturinn 2011/2012 ef viðkomandi hefur ekki innritað sig á haustönn, þá hljóti að vera tímabært fyrir háskólana alla að íhuga það. Aðstæður fólks breytast einfaldlega hraðar en svo að það geti bara tekið ákvörðun um að skrá sig í nám að hausti, aðstæður geta breyst með þeim hætti að fólk óski eftir að hefja nám um áramót. Nú er ég kannski að tala umfram það sem satt og rétt reynist en það væri algjörlega fráleitt ef loku væri fyrir það skotið að fólk gæti hafið háskólanám um áramót. Það gæti sætt því að ýmis fög sem væru á haustönn væri ekki hægt að stunda á vorönn, en það er annar handleggur. Það hlýtur að vera hægt að horfa til þess að einstaklingar geti hafið nám á ólíkum árstíma, jafnt að hausti sem og um áramót.

Ég ítreka það, frú forseti, að þetta er tæknileg breyting. Við í hv. menntamálanefnd erum ekki að hvika neitt frá þeim lögum sem sett voru 2008 um kennaramenntun. Ég ítreka enn og aftur að það skiptir máli með hvaða hætti við mótum stefnuna. Það skiptir máli að við séum sammála um að menntun kennara skipti máli á öllum stigum. Þá erum við kannski komin að grunninum, þ.e. launakjörum. Það er hins vegar annar þáttur sem ekki þarf að ræða akkúrat á sama tíma. Þar ræður viðhorf samfélagsins númer eitt, tvö og þrjú. Viðhorf þeirra sem ráða í sveitarfélögum. Viðhorf þeirra sem ráða hjá ríki. Launakjör stétta ráðast af viðhorfum. Þeim þurfum við að breyta ef við ætlum og teljum okkur meina eitthvað með því að efla kennaramenntun og fara í þá vegferð sem við hófum með lögunum 2008.

Frú forseti. Þetta er tæknileg breyting. Ég tek undir með þeim sem hér hafa rætt að við þurfum að skoða hvort þetta eigi að vera fyrir 1. janúar 2012 eða hvort hugsanlega þurfi að horfa til þess að það verði 1. júlí 2012. Ég tek jafnframt undir það með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að þetta er ekki til frambúðar. Þetta er eingöngu nú og fram til ársins 2012. Eftir það ætlum við að halda okkur við lögin.