139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Helga Hjörvar að margar þjóðir búa við fleiri en eitt þrep í virðisaukaskatti. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar veit er efra þrepið hjá okkur það hæsta í heiminum. Þannig að það er út af fyrir sig eitthvað sem þarf að skoða.

Ég ætla ekki að fara út í almenna skattapólitíska umræðu við hv. þm. Helga Hjörvar um það hvort rétt sé að hafa skattþrep almennt mjög há og veita síðan ívilnanir eða undanþágu frá því varðandi tiltekna starfsemi sem stjórnmálamenn á hverjum tíma hafa velþóknun á. Ég er frekar á þeirri línu að hafa skattþrepin almenn og lág, en tek engu að síður fram að sú breyting sem hér er lögð til, þó að um vissa ívilnun sé að ræða, styðst við góð rök og ég styð hana.

Það sem ég vildi kannski draga enn þá frekar fram er það sérstaklega sem snýr að vörugjöldum, tollum og þá virðisaukaskatti sem hangir saman, þetta hefur áhrif inn í vöruverðið sem óbeinir skattar. Það kerfi og samspil þessara gjalda, tolla, vörugjalda og virðisaukaskatts, hefur á margan hátt mjög brenglandi áhrif á vöruverð, veldur því að margar vörur verða mjög dýrar í innkaupum hér innan lands með þeim afleiðingum að fólk hefur tilhneigingu til að kaupa þær erlendis ef það hefur möguleika á. Ég held að endurskoðun að því leyti, almenn endurskoðun sem nær til miklu fleiri vöruflokka en hér um ræðir, geti einmitt leitt til sömu niðurstöðu og er í þessu máli, að það sé eðlilegt og hægt að lækka gjöldin með það fyrir augum (Forseti hringir.) að ná meiri hluta af veltunni inn í íslenska skattkerfið.