139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta um heildarendurskoðun á samspili vörugjalda, virðisaukaskatts og tolla er hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er fagnaðarefni að fjármálaráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun á þessum þáttum. Hér er út af fyrir sig verið að þjófstarta svolitlum hluta af þeirri vinnu. Ég vænti þess að við sjáum, á því þingi sem er að renna upp í október, niðurstöður úr því starfi og held að það sé mjög mikilvægt. Þar er þó að vísu ekki alltaf allt sem sýnist því auðvitað eru oft hér í gildi tollar sem við höfum í okkar tollskrá en höfum síðan samið um í gagnkvæmum samningum við fjölmörg ríki að falla frá, enda sé þá fallið frá sambærilegum hlutum af hálfu gagnaðilans. Þetta er því tiltölulega flókið og fremur ógagnsætt svið. Það getur leitt til þess að ýta sölu á vöru út úr landinu eins og ég held að dæmin um ipodana sanni. Þegar langstærstur hlutinn af vöru sem er notuð í landinu er keyptur erlendis bendir það til þess að við séum að taka of mikil gjöld og orðinn sé of mikill munur á því að kaupa vöruna hérlendis eða erlendis, og þá geti verið skynsamlegt fyrir ríkissjóð að gefa nokkuð eftir í gjöldunum og halda samt eða auka tekjur sínar.

Ég held þó að almenn lágskattapólitík, sem hv. þingmaður nefndi, hafi beðið skipbrot í fjármálaörðugleikunum hér 2008, því að öll þau lönd sem fylgdu almennri lágskattapólitík — Austur-Evrópulöndin, Eystrasaltslöndin og Ísland — lentu í miklum ógöngum með sína (Forseti hringir.) efnahagsstjórn alla.