139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að menn séu að skoða þessi mál. Ég tel að þau þurfi að fara í miklu fastari farveg. Sumar ákvarðanir um breytingar sem við höfum gert á lagaumhverfi okkar, í kjölfar efnahagshrunsins, voru teknar í miklu hraði. Ég tel að við þurfum að fara í umræðu um hugmyndafræðina að baki. Ætlum við að hafa þessar ívilnanir, t.d. á því sviði sem við ræðum hér, varðandi endurbætur á húsnæði, varanlegar eða ekki? Ég tel að við þurfum að fara að koma fram með einhverja framtíðarsýn. Og ég hef áhyggjur ef menn halda að við getum skattlagt okkur út úr þessari kreppu — það er einfaldlega ekki þannig. Ég tel að skattheimtan á Íslandi sé ekki sanngjörn eins og hún er í dag. Það eru ekki eingöngu breiðu bökin sem eru að greiða háa skatta. Það er millitekjufólk og í mörgum tilvikum fólk sem berst í bökkum sem er að greiða mjög háa skatta. Afleiðingar þess eru þær að menn leita í það að kaupa sér þjónustu án þess að greiða af því skatta. Það gerist einfaldlega alls staðar í heiminum ef skattheimtan er of hörð.

Ég tel að við séum komin yfir þessa línu. Við höfum rætt áður, ég og hv. þm. Helgi Hjörvar, um hvar þessi mörk séu og erum kannski ekki alveg sammála. En hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að við höfum gengið of langt í skattheimtunni og séum einfaldlega komin yfir þessa línu og svarta hagkerfið sé að stækka of hratt?