139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:24]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og alþjóð veit er ég óháður þingmaður ásamt því að vera þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þar sem ég sagði mig úr þingflokki hef ég ekki neinar upplýsingar aðrar en þær sem hv. þingmaður hefur um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar varðandi skattalækkanir.

Frú forseti. Ég met aðstæður í samfélaginu þannig í dag að það sé mjög brýnt að létta af heimilum, sérstaklega heimilum sem eru í millitekjuhópnum. Ríkisstjórnin hefur staðið sig mjög vel í því að standa vörð um kaupmátt tekna lágtekjuhópanna. Það hefur tekist m.a. með því að þyngja verulega byrðarnar á millitekjuhópum. Nú er svo komið að mörg heimili með millitekjur á Íslandi ná ekki endum saman. Ég fæ stöðugt bréf frá fólki úr þessum hópi sem segist vera að íhuga að hætta að borga af lánunum sínum vegna þess að lánin eru komin upp fyrir verðmæti eignarinnar og tekjurnar duga ekki til framfærslu. Ég hvet því ríkisstjórnina til þess að íhuga hvort ekki sé hægt að finna nýja tekjustofna til að létta á heimilum landsins. Lækkun 25% þrepsins væri liður í því.