139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú verður hv. þingmaður að fyrirgefa mér. Ég er ekki með gráðu í hagfræði og verð því að fá að spyrja einfaldra spurninga. Hvernig getur það farið saman að hitta þetta sama fólk og ég hitti, millitekjufólkið, sem er að sligast undan skattbyrðinni og nær ekki endum saman vegna skattahækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar, að sjá þetta vandamál en telja jafnframt að sú stefna sé rétt að skattleggja sig út úr kreppunni? Ég þarf eiginlega að fá betri útskýringar á því hvernig þetta tvennt fer saman.

Jafnframt vil ég ítreka spurningu mína varðandi svörtu atvinnustarfsemina. Millitekjufólkið og margir aðrir eru farnir að stunda hana vegna þessara skattahækkana og miklu álaga sem ríkisstjórnin hefur lagt á íslenskan almenning. Er það ekki vandamál að mati þingmannsins? Ef það er vandamál, hefur efnahags- og skattanefnd rætt það vandamál og komið með einhverjar lausnir og einhver úrræði? Ég sé þær lausnir að lækka skatta.