139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ræðu og hvatninguna. Ég held að við ættum að leggjast á eitt, sem erum í salnum og aðrir þeir sem áhuga hafa á þessum málum, að koma á einhverjum vettvangi þar sem menn geta talað saman um skattamál án þess að vera með hróp og köll, án þess að þurfa að verja einhverjar kreddur, og taka skattamálin aðeins út úr þessu daglega pólitíska samhengi og skoða þau á heildrænan hátt eins og ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur til dæmis verið að gera í bótamálunum í samfélagi við hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og fleiri. Þau hafa einmitt tekið þau mál aðeins frá, tekið þau til hliðar og skoðað þau til framtíðar. Ég er reiðubúinn til þess og legg þetta inn í þá umræðu strax, svo getum við talað um tekjuskatt og aðra skatta hér, tolla og aðflutningsgjöld. Menn eru að því í landbúnaðarmálum, voru að því hér fyrr í dag.

Það er almenn framtíðarumræða. Sú framtíð getur auðvitað hafist á morgun. Hitt er svo umræða dagsins. Við erum í mjög erfiðum málum enn þá. Það verður ekki komist hjá því að við séum við þolmörk í skattheimtu hér á næsta ári og sennilega nokkur ár í viðbót.

Af virðisaukaskattinum hef ég kannski ekki meiri fréttir en almennir fjölmiðlar. Það var verið að ræða ýmsar útgáfur í sumar af breytingum á virðisaukaskatti. Ég held að lokin verði nú þau, við sjáum það bara í október, að skattprósentunum verði ekki hnikað til að sinni, en það var ákveðinn áhugi á því í framhaldi af tillögum AGS hvort hægt væri að einfalda kerfið, jafnvel taka upp einhvers konar almenna skattprósentu, (Forseti hringir.) en þá í framtíðinni.