139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:53]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei, ég held ekki. Það sem kannski veldur því fyrst og fremst, fyrir utan þá erfiðleika sem við erum að glíma við, samhengi skatta og bóta o.s.frv., er það að við höfum á undanförnum árum, þá verð ég því miður að rjúfa þá pólitísku kyrrð sem hefur ríkt hér í stólnum síðustu mínúturnar, undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra þeirra vanrækt skatteftirlitið. Menn hafa litið svo á í þeim flokki og þeirra menn í fjármálaráðuneytinu að það sé eitthvað ljótt og rangt við að fylgjast með skattheimtu, koma í veg fyrir skattsvik og kveða niður svarta atvinnustarfsemi. Ég held að það 10–15 ára hlé sem á því hefur orðið, að ég segi nú ekki allt aftur í ráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar sem var hér upplýstur sem „maðurinn“, þannig að Pétur H. Blöndal fái að vita allt um það, sé sú vanræksla sem ég held að valdi mestu um það að svarta atvinnustarfsemin virðist vera að koma upp núna þegar síst skyldi, en af ástæðum sem okkur eru öllum kunnar. Ég held að það sé eitt af því sem við ættum að taka okkur saman um í þessum ágæta samráðshópi, sem við erum hér að stofna sem stödd erum í salnum, að taka á því vandamáli í samfélaginu sem er ekki bara vandi ríkisins heldur ekki síður vandi almennings, siðferðilegur vandi almennings, og vandi atvinnufyrirtækjanna fyrst og fremst þar sem munurinn er mikill, m.a. í virðisaukaskattinum, á því hvort menn eru heiðarlegir eða ekki. Freistingarnar eru gífurlegar og allt of lítið eftirlit með því að menn standi sig í þessum efnum.