139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[15:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir stuðningi við þetta frumvarp sem kemur frá efnahags- og skattanefnd og fagna því að sjá þá samstöðu sem ríkir í nefndinni um málið og um þá hugmynd að hér sé verið að lækka skatta og veita ívilnun á því sviði. Það veitir manni ákveðna von um að nú sé hugsanlega eitthvað í vændum um frekari aðgerðir varðandi það að sækja fram og lækka skatta.

Umræðan í dag hefur reyndar ekki styrkt þá von mína en engu að síður er þetta byrjunin á einhverju sem maður vonar að haldi áfram. Ég tel mjög mikilvægt að í þinginu verði umræða um þá framtíðarsýn sem alþingismenn hafa um skattkerfið. Við höfum rætt aðeins um virðisaukaskattskerfið og hvernig við viljum sjá það þróast. Eins og við vitum er efra stigið eða hærra stigið í virðisaukaskattinum það hæsta í heimi og það getur ekki verið að við ætlum að hafa það þannig til framtíðar. Við hljótum að þurfa að leggja fram einhverja framtíðarsýn um hvernig t.d. virðisaukaskatturinn á að þróast til að vekja von í brjósti Íslendinga um að einhverjar hugmyndir séu um það hér á landi að lækka skatta. Þetta tel ég vera gríðarlega mikilvægt og vonast til að þetta mál verði til þess að hreyfa við alþingismönnum sem og öðrum og umræðunni um það skattumhverfi sem við búum við hér á landi.

Ég tel ljóst að þær gríðarlegu skattahækkanir sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir hafi haft þær afleiðingar að svarta hagkerfið hefur stækkað og dafnað. Mér finnst alvarlegt að þeir þingmenn sem hér hafa talað af hálfu stjórnarflokkanna vilja ekki viðurkenna það. Ég hef varpað þeim spurningum til þeirra hvort þeir hafi ekki áhyggjur af þessari þróun. Við höfum öll fengið fregnir og upplýsingar um að svarta hagkerfið sé sístækkandi. Ég tel ástæðuna fyrir því vera að við erum komin yfir þolmörkin í skattahækkunum, skattarnir séu einfaldlega orðnir það háir að menn leiti inn í svarta hagkerfið. Ég tel að það sé augljóst og sagan kennir okkur það. Ég hef áhyggjur af því að menn vilja ekki horfast í augu við þá staðreynd, sem þýðir aftur það að menn taka ekki á þeim vanda og það er áhyggjuefni sem við eigum öll að velta fyrir okkur.

Ég tek að sjálfsögðu undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að eftir því sem skattarnir eru hærri gætu skatttekjur ríkissjóðs verið að lækka. Þetta helst allt í hendur. Ég varpaði þeirri spurningu til formanns efnahags- og skattanefndar hvort nefndin væri að skoða þessa stöðu varðandi svarta atvinnustarfsemi og ég gat ekki heyrt betur en að svo væri ekki, og af því hef ég talsverðar áhyggjur.

Framlagning frumvarpsins vakti mikla von í brjósti mínu um að hér væri komin fram yfirlýsing um að nú ætti að fara að lækka skatta en sú von er orðin aðeins veikari eftir því sem líður á daginn. En maður skal aldrei segja aldrei og verður spennandi að fylgjast með störfum nefndarinnar í framtíðinni.

Talsvert hefur verið rætt um það í dag hvernig við veitum ívilnanir og undanþágur í skattkerfinu. Það er náttúrlega mikilvægt að skattumhverfið sé skýrt og einfalt. En það er ekki skýrt og einfalt. Það er orðið afskaplega flókið og að mínu viti væri gáfulegast að fara yfir kerfið frá grunni og hafa reglurnar skýrar, einfaldar og skiljanlegar. En fyrst við erum í þessari stöðu með ríkisstjórn sem hefur slíka stefnu verðum við einfaldlega að horfa á það kerfi eins og það liggur fyrir og reyna að hafa áhrif á umræðuna og hafa áhrif á verkefnin með því að gagnrýna og fara yfir það sem verið er að gera.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, minntist á að verið væri að skoða frekari ívilnanir og þá aðallega varðandi uppsetningu varmadælna þar sem það á við. Ég fagna því að sjálfsögðu að það er gert en spurði jafnframt hvers vegna, þegar við erum að tala um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna endurbóta á húsnæði, sú regla væri einskorðuð við endurbætur á húsnæði, hvers vegna kæmi ekki fleira til. Ég vonast til þess að nefndin skoði það mál. Við gætum þar verið að horfa á húsgagnasmiði eða á vinnu bólstrara en mér skilst að ákveðið hafi verið að hafa þá viðmiðunarreglu að vinnan ætti að fara fram í heimahúsi eða í sumarhúsi, þ.e. á staðnum en ekki á verkstæði.

Ég kalla jafnframt eftir umræðu og einhverri stefnumörkun um það hvort þessi regla um endurgreiðsluna á endurbótum á eigin húsnæði eigi að vera varanleg í löggjöf okkar. Við höfum frá því að efnahagshrunið átti sér stað lögfest ýmis ákvæði sem hafa verið viðbrögð við því ástandi sem hefur ríkt. Ég tel vera kominn tíma á það að horfa svolítið yfir þetta svið allt saman og endurskoða hvað af þessu eigi að vera varanlegt í löggjöf og hvað ekki. Ég tel að það sé mjög mikilvægt vegna þess að mörg af þeim nýmælum í lögum voru sett í miklum flýti og með miklu hraði. Það er einfaldlega það langt um liðið að við eigum að einbeita okkur einnig að fara yfir þessa löggjöf og skoða hana og svara t.d. spurningunum: Viljum við hafa þetta svona til frambúðar? Var verið að svara þarna eingöngu tímabundnu ástandi? Það er ekki ljóst og það er slæmt vegna þess, eins og ég sagði áðan, að umhverfið okkar á að vera skýrt og einfalt.

Ég vona að þessar spurningar mínar rati inn á borð hjá efnahags- og skattanefnd eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Helgi Hjörvar, tók ágætlega í og menn fari að velta þessu fyrir sér. Ég hvet til þess að það verði gert fyrr en seinna svo að það komist á hreint hvernig framtíðarsýnin er í þessum málaflokki og líka það að menn hafi einhverjar hugmyndir og hafi þá afstöðu að við eigum að þora að tala um framtíðina og þora að tala um að setja fram einhverja stefnumörkun varðandi framtíðina en ekki eingöngu vera að bregðast við málefnum líðandi stundar.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég fagna frumvarpinu og styð það og ég hvet enn og aftur þingmenn sem og efnahags- og skattanefnd til dáða í því að leggja fram frekari þingmál um lækkun skatta.