139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir fína ræðu. Hún fór mjög efnislega yfir málið hér, marga þætti þess þó að hún hafi að sjálfsögðu ekki getað farið yfir þá alla á þessum stutta ræðutíma. Hv. þingmaður á sæti í umhverfisnefnd og hefur fjallað um þetta og hefur mikla þekkingu á þessu máli. Ég verð að viðurkenna að ég trúði því eiginlega ekki fyrst þegar ég heyrði að til stæði að gera þetta með þessum hætti, sem hv. þingmaður fór mjög vel yfir í ræðu sinni, að ef menn ætla að fara í framkvæmdir á Íslandi, hvort heldur það er í virkjanagerð eða bara vegagerð, að við ætlum að fullgilda Árósasamninginn þannig að hverjum og einum sé frjálst að kæra sama hvar hann er búsettur í veröldinni. Hvaða hagsmuni hefur fólk sem býr allt annars staðar á hnettinum gagnvart því sem snýr að t.d. vegagerð á Íslandi? Hvers konar endemis vitleysa er þetta eiginlega? Þetta er eintómt helvítis rugl — afsakið orðbragðið, virðulegi forseti.

Hv. þingmaður koma líka inn á það í ræðu sinni að þær nefndir sem hafa verið að úrskurða hafi verið komnar langt, langt umfram þau tímamörk sem eru sett. Þetta hefur í mörgum tilfellum háð mörgum atvinnutækifærum og það er kannski ekki vegna þess að fólkið vilji ekki vinna þetta, það er bara vegna þess hve álagið er mikið. Hv. þingmaður kom líka inn á það að mjög auðvelt væri að drekkja stjórnsýslunni hér með því að gefa þetta frjálst. Þangað kæmu kannski þúsundir kæra vegna lagningar eins vegar. Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri einustu átt. Mér finnst, virðulegi forseti, að sú breytingartillaga sem þeir þrír hv. þingmenn í minni hluta umhverfisnefndar boða hér, með aðkomu þeirra samtaka sem snúa að bæði náttúruvernd og umhverfisvernd og eins útivist, muni að sjálfsögðu dekka þetta nægilega.

Mig langar svo að ítreka þá spurningu til hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur hvort hún sjái ekki fyrir sér að stjórnsýslan hér verði (Forseti hringir.) kæfð og hér verði ekki hægt að gera nokkurn skapaðan hlut.