139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var nú eiginlega ekki að tala um þetta og ég er heldur ekki að persónugera málið. Það eina sem mér finnst stinga í stúf er að ákveðinn aðili, sem hefur ákveðna kennitölu, skuli eiga kost á ákveðinni stöðu sem samkvæmt frumvarpinu er mjög valdamikil, hvort það séu eðlileg vinnubrögð. Ég minnist þess ekki að hafa séð svona ákvæði áður í lögum að ákveðinn aðili sé ráðinn samkvæmt lögum, að honum sé gefið færi á því að halda starfi eða fá starf samkvæmt lögum og meira að segja að halda starfsskyldum. Það er reyndar svo sem þekkt eins og þegar bankarnir voru sameinaðir og annað slíkt. Ég man ekki eftir að hafa séð einn mann tekinn svona út og alveg sérstaklega vegna þess að hann verður samkvæmt 3. gr. mjög valdamikill því að hann ákveður hvaða aðilar í þessari sjö manna stjórn fjalla um einstök mál, hvort það verði þrír eða fimm manns í nefnd, stundum einn, til að fjalla um einstök mál. Það varðar mjög miklu hvernig þessi mál eru leyst. Ef til dæmis tveir í þriggja manna nefnd sem hann tekur ákvörðun um að skuli fjalla um ákveðið mál, því að hann metur líka málið og hvort það skuli vera þrír eða fimm sem fjalla um það, eru með þekktar skoðanir í einhverjum skilningi, skoðanir sem einhverjum hugnast, honum til dæmis, er málið fyrir fram afgreitt.