139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég taki af allan vafa um það þá skildi ég ekki ummæli hv. þingmanns þannig að hann væri að persónugera þetta frekar en ég við einhvern einstakling. Hv. þingmaður hefur mun lengri reynslu af þingstörfum en ég, sem hef einungis setið á þingi í rúm tvö ár, en það er mjög sérstakt að sjá þetta ákvæði, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, að það skuli vera sett í lög frá Alþingi að ákveðinn einstaklingur skuli taka við þessari stöðu. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að mér finnst að slíkt ætti ekki að vera í lagasetningu.

Síðan er það líka spurningin sem menn standa frammi fyrir þegar verið er að sameina stofnanir til að mynda hjá ríkinu: Hvers vegna er það gert þannig að alltaf er gengið að því vísu að allir haldi störfunum? Þá getum við spurt okkur þeirrar spurningar: Hvað um aðra aðila, hvort heldur það er í þessu tilfelli eða öðrum sem hafa menntun og metnað til að gegna viðkomandi störfum? Þeim er ekki einu sinni gefinn kostur á að sækja um. Það er spurning sem menn þurfa líka að spyrja sig að hvort sé eðlilegt.

Ég tek undir með hv. þingmanni þar sem hann bendir réttilega á að það er mjög sérstakt að sett skuli í lög sem samþykkt eru á Alþingi að forstöðumaður ákveðinnar nefndar skuli taka við starfi sem er fyrir fram ákveðið að verði til hér. Ég tek undir að það er mjög óheppilegt og ætti ekki að vera með þeim hætti. Við þurfum líka að spyrja okkur að því á sama tíma og við stöndum í öllum þessum niðurskurði hvernig menn ætli að gera það af því að niðurstaðan er líka sú og stjórnvöld fá það framan í sig að það hefur verið hagrætt í ríkisrekstrinum með því að reka konurnar út af sjúkrastofnununum, heilbrigðisstofnununum. Það er niðurstaðan, það er hinn blákaldi veruleiki. Og nánast allt hjá Landspítalanum og líka mörgum öðrum stofnunum. Það er blákaldur veruleikinn.