139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var fróðleg ræða og flutt af mikilli þekkingu og vegna þess að hægt er að leita í þekkingarbrunn hv. þingmanns langar mig að spyrja hann um þetta. Hann telur að helst sé að leita skýringar á tillögu frumvarpsins og meiri hluta umhverfisnefndar um almenna málskotsaðild í því að umhverfisráðherra og meiri hluti umhverfisnefndar vilji stöðva allar framkvæmdir í landinu, eyðileggja framkvæmdaferlið með því að hleypa alls konar vitleysingum í það, jafnvel almenningi hér á götunni og meira að segja útlendingum. Það kann að vera skýring, ég skal ekki segja, ég er að leita þekkingar og fróðleiks hjá hv. þingmanni.

Mig langar að spyrja hvernig öfgamönnum í Portúgal hafi tekist til í þessu með því að innleiða þar almenna málskotsheimild, að vísu ekki eftir stjórnsýsluleiðinni eins og hér er og hv. þingmaður veit auðvitað mætavel, heldur eftir dómstólaleiðinni. Það er þannig að allur almenningur og alls konar vitleysingar meira að segja í öðrum löndum geta sumsé kært framkvæmdir í Portúgal „villevekk“ — allir geta kært allt eins og sagt hefur verið hér í ræðum nokkrum sinnum af spöku viti. Og hvernig þetta hafi líka gengið annars staðar í Evrópu þar sem menn hafa farið nokkurn veginn sömu leið og í Portúgal þó að með öðrum hætti sé í samræmi við eigin lagahefð og samfélagsaðstæður. Er allt bara í graut í þessum ríkjum? Er það þannig að framkvæmdir bara sjáist ekki og menn lifi þarna á fjallagrösum og geitamjólk eins og var við Kristsburð? Ég hef ekki komið til Portúgals, bara aldrei, og veit ekki hvernig ástandið er þar en ég veit að hv. þingmaður hefur væntanlega komið þangað og talar um það af miklu viti. Ég bið hann að leyfa okkur hinum að njóta þeirrar þekkingar sem hann hefur á þessum málum.