139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var margt athyglisvert í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar eins og oft þegar hann kemur í pontu og deilir út einkunnum og vitneskju sinni um eitt og annað. Mér fannst þó svolítið sérkennilegt að hann vildi ekki svara því hver tilgangurinn væri. Hann sagði að það kunni að vera tilgangurinn með frumvarpinu að stöðva framkvæmdir og hleypa öllu í bál og brand. Ég hefði kannski haft meiri trú á því að formaður umhverfisnefndar svaraði því meira afdráttarlaust að það væru einhverjar aðrar ástæður fyrir því að menn vildu ganga þessa leið. Ég sagði í ræðu minni að ég hefði ekki fundið þann rökstuðning í nefndaráliti meiri hlutans.

Það voru ekki mín orð að hér ætti að hleypa að alls kyns vitleysingum og jafnvel af götunni og af erlendu bergi brotnu. Það voru ekki mín orð. Ég sagði einfaldlega að það væri óeðlilegt að mínu viti að aðilum sem hefðu hér enga hagsmuni væri hleypt að kæruborðinu með þeim hætti sem hér er lagt til.

Varðandi hvort allt sé í bál og brand og ekkert sé gert í þeim löndum sem hv. formaður umhverfisnefndar nefndi þá býst ég við að svo sé ekki. En þar er kannski heldur ekki um eins auðugan garð að gresja, ekki eins mörg verkefni hlutfallslega miðað við höfðatölu, ef við viljum ganga svo langt, eða annað eins og hér er í gangi og sú umræða, öfgaumræða sem ég tel að hér hafi verið um bæði vernd og eins nýtingu virkjunarkosta. Ég tel að það hafi æst upp málið.

Síðan er held ég augljóst og það kemur fram í nefndarálitunum að það skortir (Forseti hringir.) einfaldlega á að það hafi verið kannað með nægilega skýrum hætti hver reynslan er hjá mismunandi þjóðum.