139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef svo sem litlu við það að bæta sem við ræddum áðan, ég og hv. þm. Mörður Árnason. Það er mín tilfinning og mín skoðun að það eigi eftir að vinna ákveðna vinnu til að útskýra það og skýra frá bæði reynslu annarra þjóða um hvernig þetta hafi virkað og af hverju Norðurlöndin ganga ekki svona langt. Ég tel að það séu reyndar mjög veigamikil rök í sjálfu sér að við eigum ekki að ganga lengra en þau í þessum efnum og ég reyndi held ég að útskýra það í inngangi mínum í ræðunni.

Ég vona, eins og ég sagði í lok ræðu minnar, að hv. þingmaður, formaður umhverfisnefndar, taki þetta mál inn til nefndarinnar og gaumgæfi af skynsemi og yfirvegun þá breytingartillögu sem minni hlutinn er með og aðrar ábendingar sem hafa komið hér fram til að gera málið betra og skynsamlegra þannig að við þingmenn getum sæst á það og um það verði miklu meiri sátt en í hefur stefnt og mun stefna í ef þröngva á því í gegn að setja ákvæði um actio popularis, svo ég vitni í latínu með leyfi forseta, eða almennan málskotsrétt og troða honum inn í kæruferli fyrir allar framkvæmdir.