139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi, og ég kom aðeins inn á það við upphaf ræðu minnar, hefur auðvitað verið röng forgangsröðun í mörgum verkefnum hér. Það hafa komið inn gæluverkefni ríkisstjórnarflokkanna þar sem oft og tíðum er verið að gera tilraun til að gjörbylta því samfélagi sem við höfum búið við, í einstaka málum. Á meðan hafa hlutir eins og atvinnumál eða það að tryggja velferðarþjónustu um allt land einhvern veginn setið á hakanum og síðan allt í einu orðið fyrir niðurskurðarhnífnum allsendis „uforvarendes“ liggur mér við að segja.

Það er auðvitað ósk allra held ég að rammaáætlun um vernd og nýtingu sé tæki til að skapa meiri sátt um þennan málaflokk og að í framtíðinni verði færri mál þar sem svona mikill ágreiningur verður um og þar af leiðandi færri mál sem fara í allt þetta kæruferli sem við höfum séð á liðnum árum. Hins vegar er jafnmikilvægt að þeir tímafrestir sem við teljum eðlilega í stjórnsýslunni verði haldnir. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að í nefndaráliti meiri hlutans er vikið að því með mjög veikum hætti að tryggja þurfi fjármagn og möguleika núverandi úrskurðarnefnda til að klára þau mál sem þar eru, þann stabba sem menn eru komnir með og er á eftir. Það vantar svona skýrari texta og heimildir í það.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að lýsa því yfir að ég tel að sú leið sem Norðurlöndin hafa flestöll farið sé leið sem við ættum að fara.