139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið löng en ágæt að sumu leyti. Full þörf er á því að alþingismenn af ýmsu tagi taki þátt í umræðum um umhverfismál og kynni sér það sem þar er um að vera. Við erum að taka inn smám saman umhverfislöggjöfina úr evrópskum fyrirmyndum og víðar að. Má segja að við höfum verið, ég segi kannski ekki ljósárum á eftir öðrum ríkjum í þessu, en áratugum. Það skiptir máli að við komum þessu þokkalega fyrir, fyrir okkur, fyrir íslenska náttúru, fyrir næstu kynslóðir og það samstarf sem við eigum nú þegar í við önnur Evrópuríki og kynni að verða enn nánara þegar fram líða stundir.

Það er vissulega freistandi að svara ýmsum fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint og fjalla um umræðuefni þingmanna í umræðunni. Ég hygg að í raun og veru hafi þeim fyrirspurnum þegar verið svarað í meirihlutaálitinu frá umhverfisnefnd annars vegar og hins vegar í framsöguræðu minni, þannig að þörfin er kannski ekki eins brýn og ræðumenn hafa talið hér í hita leiksins.

Ég vil því í staðinn segja frá því, vegna þess að við teljum þetta frumvarp mjög mikilvægt, að við teljum að Íslendingum og Alþingi sé heiður að því að lögfesta 3. þátt Árósasamninganna og teljum að frekari umræða um þessi efni sé tilgangslítil. Við í meiri hluta umhverfisnefndar höfum nokkurn veginn öll fallist á að greiða atkvæði með tillögu minni hlutans í þessum efnum, tillögu sem kom fram — var það ekki í gær en ekki í vor? þannig að öllu sé til haga haldið — og gerum ráð fyrir að það muni greiða mjög fyrir framgangi málsins í þessari umræðu, 2. umr. og 3. umr. sem vonandi verður á morgun eða hinn.