139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé rétt til getið hjá hv. formanni umhverfisnefndar að það greiði fyrir framgangi málsins í þinginu að meiri hlutinn í umhverfisnefnd hyggist fallast á eða styðja þá breytingartillögu sem við í minni hlutanum höfum lagt fram og var dreift á þingi snemma í dag.

Ég get verið sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að Árósasamningurinn verði fullgiltur og meðferð hans ljúki. Stóri ágreiningurinn í málinu hefur snúist um útfærslu þess ákvæðis sem breytingartillaga okkar í minni hlutanum lýtur að. Ef um er að ræða samkomulag eða málamiðlun skulum við segja sem lýtur að því að breytingartillaga okkar, sem gengur ekki eins langt og frumvarpið að þessu leyti, verði samþykkt hjálpar það auðvitað að málinu ljúki á þingi.

Athugasemdir okkar í minni hlutanum lutu raunar að fleiri atriðum. En eins og fram hefur komið í umræðum í dag og síðasta föstudag er það atriðið varðandi hinn almenna kærurétt eða almenna kæruaðild að stjórnsýslumálum á þessu sviði sem helst hefur vakið deilur og ágreining. Ef um er að ræða víðtæka samstöðu um niðurstöðu í þeim efnum hlýtur það að leiða til þess að málið eigi greiðari leið í gegnum þingið en ella.