139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs út af einu mesta leyndarhyggjumálinu sem tengist þessari ríkisstjórn, einkavæðingunni á Sjóvá – Almennum. Í síðustu viku, nánar tiltekið 30. ágúst, fengum við seðlabankastjóra á fund í hv. viðskiptanefnd og þar staðfestist að þær áhyggjur sem við höfum haft af þessu máli eiga við rök að styðjast. Verklagsreglunum var hent út á hafsauga. Það kom skýrt fram hjá Sjóvá – Almennum að hætt hafði verið við þetta formlega söluferli, og stjórnsýslan er þannig að seðlabankastjóri var allt í kringum borðið.

Að auki kom í ljós að það er erfitt að sjá að það sé heimild í lögum um Seðlabankann fyrir því að fara í það verkefni sem farið var í. Ég ætla þó ekki að eyða tíma í það núna, það gefst tækifæri til þess seinna. Það er tvennt sem ég vil vekja athygli hv. þingmanna á. Upplýsingum um kaupverðið var dreift í hv. viðskiptanefnd og það átti að vera trúnaðarmál sem gerir það að verkum að við getum ekki tjáð okkur um þær upplýsingar. Ég held að ég geti þó sagt að mér finnast yfirlýsingar seðlabankastjóra í fjölmiðlum ekki mjög nákvæmar svo ég fari ekki meira í það en við getum ekki tjáð okkur um þetta vegna þess að það er trúnaður á þessum gögnum. Sömuleiðis sendi ég Seðlabankanum bréf og bað um afrit af svörum Seðlabankans við spurningum umboðsmanns Alþingis. Ég hef ekki fengið svör við því sem mér finnst undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að (Forseti hringir.) þegar Seðlabankinn svaraði til dæmis umboðsmanni út af verðtryggingunni birti hann þær upplýsingar samstundis á vefnum.

Virðulegi forseti. Ég hvet forseta til að fylgja því eftir að ég fái þessar (Forseti hringir.) mikilvægu upplýsingar.