139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða sama mál og hv. þingmenn ræddu hér áðan, þ.e. hver staðan sé í viðræðuferlinu og hvort þinginu sé ljós sú staða. Erum við nægilega upplýst? Sjálfur óskaði ég eftir fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í júlíbyrjun. Sá fundur var haldinn um miðjan ágúst. Ég bað um að haldinn yrði opinn fundur. Síðan kom upp sú hugmynd að sá fundur yrði sameiginlegur með utanríkismálanefnd. Það er núna búið að vera í skoðun í þrjár vikur. Ég heyri síðan að varaformaður utanríkismálanefndar fær boð frá hæstv. utanríkisráðherra um að halda fund. Það er ekki það sama, Jón og séra Jón. (Gripið fram í.) Það gerist samdægurs. Ég er búinn að bíða núna síðan í byrjun júlí eftir þessum fundi, þ.e. í tvo mánuði. Ég hef líka beðið um opinn fund, en þessi fundur í dag á ekki að vera það.

Er okkur ljóst hvernig ferlið er? Á þessum fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd var upplýst að enginn veit hvar verið er að vinna samningsmarkmið í landbúnaðarmálum. Það veit enginn. (Gripið fram í: Farðu á netið.) Það veit enginn.

Það er svolítið sérstakt að við séum ekki upplýst í þessu máli. (Gripið fram í: Farðu inn á netið.)

Ég held jafnframt að það væri skynsamlegast í ljósi þess sem kom margítrekað fram í sumar, þar sem voru misvísandi og óljósar yfirlýsingar hæstv. utanríkisráðherra um þetta mál, og kannski líka í ljósi þessa bréfs sem kom frá Evrópusambandinu í gær um svokallað „Opening Marks“ að til að bæta við þann lista sem við þurfum að ræða um á þessum sameiginlega fundi, þ.e. hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fengjum við einnig sendiherra ESB á Íslandi, Timo Summa, til að koma á slíkan fund. Þá fáum við upplýsingarnar beint en ekki túlkaðar af hæstv. utanríkisráðherra sem hefur yfirlýst markmið um að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki vilji þjóðarinnar, það eru 60–65% (Forseti hringir.) sem vilja það ekki. Síðast í morgun kom í ljós að 50–56% þjóðarinnar vilja draga umsóknina til baka. Ég held að þingmenn ættu (Forseti hringir.) líka að taka tillit til þess stóra hóps.