139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mig langar í tilefni af viðtali við Þórunni Sveinbjarnardóttur í Kastljósi í gærkvöldi, fyrrverandi þingflokksformann Samfylkingarinnar, að ræða aðeins um stöðu ríkisstjórnarinnar. Vil ég af þessu tilefni óska Þórunni góðs gengis á nýjum vettvangi.

Hún hélt því þar fram að það mætti spyrja sig hvort þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði úthald í að klára kjörtímabilið. Við höfum spurt okkur í stjórnarandstöðunni á undangengnum tveimur árum hvort ríkisstjórnin sem slík hefði yfir höfuð úthald í þetta verkefni. Það er mjög gagnlegt að reyndur og virtur stjórnmálamaður eins og Þórunn Sveinbjarnardóttir skuli spyrja þessara spurninga rétt eins og þúsundir annarra Íslendinga eru að gera.

Hver er staðan? Staðan er sú að yfir 20 þús. störf hafa glatast á síðustu rúmum tveimur árum í íslensku atvinnulífi. 15 þús. Íslendingar eru án atvinnu og það eru þessi mál sem við eigum að vera að ræða á Alþingi Íslendinga í dag. Hvernig ætlum við að fjölga störfum? Er verið að fjölga störfum í sjávarútvegi með því að halda þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar í gíslingu undir óljósum áformum ríkisstjórnarflokkanna um hvað gerist varðandi rekstrarumhverfi sjávarútvegsins á morgun eða á næstu mánuðum? Hver er stefnan er varðar fjárfestingar í orkufrekum iðnaði? Þar er annar stjórnarflokkurinn algjörlega á móti og ljóst að þúsundir starfa hafa glatast sem hefðu getað orðið til ef við værum með ríkisstjórn sem hefði atvinnumálin í brennidepli. Þess vegna er eðlilegt að spyrja, og við spyrjum okkur líkt og Þórunn Sveinbjarnardóttir gerði í Kastljósinu í gær, hvort Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi úthald til að klára þetta eða hvort ríkisstjórn sjálf hafi yfir höfuð úthald til þess. Ég vona þjóðarinnar vegna að hún muni ekki hafa það.