139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[11:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Árósasamningurinn var undirritaður af Íslands hálfu árið 1998 og byggir, eins og hér hefur komið fram, á þremur meginstoðum. Tvær þeirra hafa verið innleiddar í íslensk lög og síðan hefur slagurinn staðið um það með hvaða hætti þriðja stoðin yrði innleidd.

Umhverfisnefnd tókst á um þetta í fyrravetur og hér liggur fyrir tillaga okkar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins ásamt fulltrúa Framsóknar í umhverfisnefnd, til málamiðlunar um að við getum náð saman um að innleiða þessa þriðju stoð með þeim hætti sem hér greinir. Það þýðir ekki að við séum í öllu sátt við það ferli sem þetta mál er sett í. Í það minnsta er það tímafrekt og flókið, ill yfirsýn um alla þá þætti sem í framkvæmdum eru tengdir kæruleiðum og við vildum gjarnan sjá kerfið einfaldað.

Engu að síður lýsum við yfir stuðningi við þá niðurstöðu sem formaður umhverfisnefndar mælti fyrir áðan og lýsum okkur (Forseti hringir.) í öllum megindráttum fylgjandi þeim breytingartillögum sem komið hafa fram í málinu.