139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[11:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að hér er að myndast meiri hluti fyrir þessari breytingartillögu sem ég lagði fram í gær ásamt sjálfstæðismönnum í umhverfisnefnd. Hér er verið að loka á þær opnu aðildarkærur sem lagðar voru til í frumvarpinu. Að mínu mati var alveg galið að fara af stað með þær og leyfa heimsbyggðinni allri að hafa kæruaðild á Íslandi í ákveðnum þáttum umhverfismála.

Hér er ekki um hrossakaup að ræða eins og kom fram í atkvæðaskýringu eins þingmanns áðan. Það er verið að gera þetta af skynsemi og þetta sýnir að stjórnarandstaðan getur haft áhrif, beitt sér og breytt skoðun ríkisstjórnarinnar ef málið er nógu gott. Þess vegna erum við ekki bara á móti til að vera á móti, við vorum á móti þessari opnu kæruaðild vegna þess að það hefði kaffært íslenska stjórnsýslu og hindrað uppbyggingu atvinnulífs.