139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[11:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég læt mér bregða við þetta ákvæði. Í fyrsta lagi er ég alltaf á móti því að ákveðið sé við sameiningu eða niðurlagningu stofnana að allir starfsmennirnir haldi störfum sínum. Þá næst engin hagræðing fram, að sjálfsögðu ekki. Alveg sérstaklega í þessu ákvæði brá mér því að þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Forstöðumanni úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál skal boðið að taka við starfi forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum þessum með óbreyttum starfskjörum.“

Með lögum er maðurinn ráðinn til starfa, einn ákveðinn maður. Þessi maður er 68 ára. Hann verður væntanlega í starfinu í fimm ár og þá er hann orðinn 73 ára og það er á móti reglunni um 70 ára hámarksaldur opinberra starfsmanna.