139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

skattlagning á kolvetnisvinnslu.

702. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og skattanefndar um það mál er lýtur að skattlagningu á olíuvinnslu og nefndaráliti sem fyrir liggur á þskj. 1584 og þingmenn eru í færum að kynna sér.

Hér er í grundvallaratriðum um að ræða hið skattalega umhverfi olíuvinnslunnar sem gæti tekist norður af landinu ef þau spennandi tækifæri sem þar kunna að leynast verða við frekari rannsókn og leit að raunveruleika á komandi árum. Sú lagaumgjörð sem sett var um skattlagningu á þessu reyndist ekki vera með þeim hætti að nægilega áhugavert væri fyrir alþjóðleg fyrirtæki að koma inn í þær kostnaðarsömu rannsóknir sem þarf að ráðast í áður en jafnflókin og tæknilega krefjandi vinnsla og vinnsla á Drekasvæðinu er getur orðið að veruleika. Þess vegna er verið að bæta skattumhverfið með breytingum á því með það að markmiði að nýtt útboð geti skilað þeim árangri að hér komi aðilar inn með fjármagn í leit að þessari mikilvægu auðlind á okkar svæðum.

Ég held að út af fyrir sig þurfi ekki að fjölyrða um málið sjálft. Um það er góð samstaða og þær breytingar sem verið er að gera á umgjörðinni en ég vildi vekja þingmenn til umhugsunar um að hér er verið að setja sérstaka skattaumgjörð utan um þessa atvinnugrein, aðra umgjörð um skattlagningu á þessari starfsemi en annarri atvinnustarfsemi í landinu. Það endurspeglar það að hér er um að ræða atvinnugrein sem mun einvörðungu byggja á nýtingu auðlinda Íslendinga ef þær reynast þá vinnanlegar með hagkvæmum hætti á þessu svæði. Þess vegna er hér sérstök skattaumgjörð sem og í öðrum löndum í kringum okkur sem vinna olíu vegna þess að menn eru sammála um að það þurfi að haga skattheimtu með allt öðrum hætti þegar fyrirtæki hafa nýtingarrétt á sameiginlegum auðlindum þjóða, eins og í þessu tilfelli olíu á landgrunninu.

Ég held að þessi rammi sem hefur verið þróaður í kringum olíuvinnsluna í kringum okkur og sóttar eru fyrirmyndir um eigi að vera okkur umhugsunarefni í þinginu. Ef til vill gætu svipuð tæki orðið til þess að draga úr þeim mikla ágreiningi sem verið hefur um aðrar atvinnugreinar í landinu sem byggja á nýtingu auðlinda og því sífellda álitamáli hvernig almenningur eigi að njóta eðlilegrar auðlindarentu, hvort sem er af fallvötnum í sameign þjóðarinnar, af fiskimiðunum í sjónum eða öðru.

Hér er þeirri aðferðafræði beitt að því hærra hlutfall af veltunni sem hagnaðurinn verður, þess meira leggur fyrirtækið í sameiginlega sjóði almennings til að efla velferð þjóðarinnar og lækka skattbyrði hennar til lengri tíma. Það er viðurkennt að hún á hlutdeild í auðlindunum og eftir því sem auðlindin sjálf er ríkari þáttur í verðmætasköpuninni, þess meiri verður hagnaðurinn hlutfallslega af umsvifum fyrirtækisins. Þess vegna vex skattheimtan eftir því sem hreinn hagnaður er stærri hluti af umsvifunum vegna þess að með því er verið að nálgast þann umframarð sem í atvinnugreininni er vegna þess að fyrirtækin hafa aðgang að auðlind í sameign þjóðar. Kannski er það einhver slík aðferðafræði sem við eigum að skoða betur og ræða hvort við getum beitt til að setja niður þær langvarandi deilur sem hafa verið um skort á eðlilegri auðlindarentu af sjávarútveginum í landinu og að hann leggi nægilega til í þeim erfiðu verkefnum sem við sameiginlega erum í, bæði hvað varðar skattbyrði og niðurskurð á velferðarþjónustu. Það þarf líka að setja niður þær miklu áhyggjur sem almenningur hefur augljóslega af því að hann muni ekki í framtíðinni njóta auðlindarentu af öðrum auðlindum sínum, svo sem orku og köldu vatni. Það birtist okkur aftur og aftur í mikilli andstöðu, ótta og tortryggni við áform erlendra aðila um að fjárfesta í þessum mikilvægu atvinnugreinum okkar. Það stafar auðvitað af því að við á löggjafarþinginu höfum ekki sett varanlegan og traustan lagaramma sem tryggir almenningi að hann fái eðlilega auðlindarentu af auðlindum sínum eins og gert er ráð fyrir að hann hafi af olíuvinnslunni. Við sækjum fordæmi til annarra þjóða sem þróað hafa tæki til að skapa sátt um auðlindanýtingu þar og við gætum lært mikið af þeim.