139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum, sem fjallar aðallega um reglur um gjaldeyrishöft. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að í meðförum hv. efnahags- og skattanefndar hefur málið skánað til muna þó enn sé það slæmt. Ég hef verið dálítið hugsi yfir þessu frumvarpi frá því það var fyrst sett fram eða því hugmyndaflugi sem þar var að finna þegar það var smíðað.

Hugmyndir voru uppi um það, sem með breytingartillögum er lagt til að verði breytt, að þeir sem fóru til útlanda, þá máttu t.d. foreldrar ekki kaupa gjaldeyri fyrir börnin, barnabörnin eða hvernig sem það nú var, heldur varð að færa sönnur á að viðkomandi einstaklingar ættu peninginn sjálfir. Eins var þegar fólk kom til baka erlendis frá þá var nánast hægt að taka það og snúa því við eða snúa því á hvolf í flugstöðinni til að vita hvort einhverjar evrur eða pund væru eftir svo öruggt væri að erlenda myntin mundi skila sér aftur inn í gjaldeyrisvaraforða landsins.

Því veltir maður fyrir sér hvort stjórnin á efnahagsmálunum sé með þeim hætti að þeir útgangspunktar sem efnahagsstjórn og gjaldeyrismál landsins fjalla um séu í raun og veru svona, hvort það sé virkilega svo komið fyrir okkur.

Virðulegi forseti. Ég vil byrja ræðu mína á að fjalla aðeins um nefndarálit meiri hluta efnahags- og skattanefndar. Mig langar að vitna í það á þremur eða fjórum stöðum. Fram kemur að frumvarpið er reist á áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta fyrir 31. desember 2015 sem ríkisstjórnin samþykkti 25. mars. Gjaldeyrishöftunum var komið á í kjölfar neyðarráðstafana sem íslensk stjórnvöld gripu til vegna bankahrunsins 2008. Þetta var samþykkt á ríkisstjórnarfundi 25. mars 2011 um að stefna að því að gjaldeyrishöftin gildi til 2015, þ.e. í 55 mánuði. Þetta er ekki mjög metnaðarfull áætlun eins og gefur að skilja.

Síðan koma ákveðnar hugleiðingar hjá meiri hluta nefndarinnar sem mig langar aðeins að vitna í, með leyfi forseta.

„Þegar gjaldeyrishöftin voru sett var stefnt að losun þeirra eins fljótt og því yrði við komið vegna röskunar sem þeim er samfara og alþjóðlegum skuldbindingum um frelsi í viðskiptum. Reglur um höftin og umfangsmikið eftirlit sem þeim fylgir setja athafnafrelsi manna skorður sem geta gengið nærri stjórnarskrárvörðum réttindum á sviðum sem varða atvinnufrelsi og friðhelgi eignarréttar og einkalífs“.

Þrátt fyrir það sem stendur í meirihlutaáliti efnahags- og skattanefndar hafa menn ekki metnað til að stefna að því að laga þetta fyrir árið 2015.

Síðan vil ég, virðulegi forseti, vitna í annað atriði í áliti meiri hlutans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Seðlabankinn telur nú með hliðsjón af þeim tíma sem liðinn er að dregið hafi úr þörf fyrir það víðtæka framsal valds sem bankanum var fengið til þess að breyta reglum um gjaldeyrismál. Málið varði auk þess mikla hagsmuni og eðlilegt sé á þessum tímapunkti að gefa löggjafanum tækifæri til að fjalla um reglurnar og skjóta styrkari stoðum undir framkvæmd þeirra …“

Við þetta orðalag, virðulegi forseti, staldraði ég töluvert og reyndi að lesa í línurnar hvað við er átt með því að „skjóta styrkari stoðum“ undir reglurnar. Getur verið, virðulegi forseti, að menn séu að uppgötva það nú að hugsanlega sé ekki lagastoð fyrir þeim reglum sem Seðlabankinn er að framfylgja? Ekki veit ég það og væri áhugavert að fá það fram hjá formanni hv. efnahags- og skattanefndar, Helga Hjörvari, ef hann gæti upplýst mig um það eða einhver sem situr hér inni hvers vegna þetta er sett fram með þessum hætti í texta frá meirihlutaáliti nefndarinnar.

Mig langar að lokum, virðulegi forseti, að vitna í eina setningu í viðbót þar sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn áréttar að höftin eigi ekki að vara að eilífu og markmið sé að afnema þau í áföngum, því fyrr því betra.“

Það er markmið og skýr skoðun meiri hluta efnahags- og skattanefndar að höftin eigi ekki að vera alveg til framtíðar og betra sé að afnema þau fyrr en seinna. Það finnst mér, virðulegi forseti, sýna algert metnaðarleysi og í raun algera uppgjöf. Þetta er ekkert annað en uppgjöf fyrir því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir.

Þegar við ræðum gjaldeyrismálin í heild sinni verðum við að vera samkvæm sjálfum okkur í þeirri umræðu. Ég velti því fyrir mér hver forsenda þess er að við getum komið stöðugleika á gjaldmiðilinn. Við vitum öll af þeirri snjóhengju sem hangir yfir okkur sem stundum er kölluð svo, þ.e. svokallaðar aflandskrónur eða eignir erlendra aðila í krónum. Áætlað er að það sé einhvers staðar á milli 400–500 milljarðar og nú hefur Seðlabankinn farið af stað í vegferð með það hvernig megi losa þessa hengju eða minnka hana, taka úr henni það mesta en það hefur svo sem ekki skilað miklum árangri hingað til.

Það sem vekur líka athygli mína er hvernig við komum til með að reka ríkissjóð og hvernig við sköpum tekjur fyrir þjóðarbúið. Það mun auðvitað ráða að mestu leyti, og efnahagsstjórnin í heild sinni, hvernig framþróun gjaldmiðilsins muni verða og hvort einhverjir vilja þá yfir höfuð eiga krónur og telja það þess virði að hafa þær heldur en einhvern erlendan gjaldeyri. Maður veltir því fyrir sér þegar við höfum upplifað það í þinginu að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur sagt í þessum ræðustól að krónan sé ónýt. Efnahagsráðherra landsins segir: Gjaldmiðillinn okkar er ónýtur, einskis nýtur. Og ef hæstv. ráðherra sem fer með efnahagsmál landsins hefur ekki trú á gjaldmiðli þjóðarinnar þá er kannski erfitt að ætlast til þess að einhverjir aðrir hafi trú á því að gjaldmiðillinn muni rétta úr kútnum. En það er hins vegar sú trú Samfylkingarinnar að Evrópusambandið og innganga þangað muni að sjálfsögðu laga allt sem þurfi að laga, alveg sama hvað það er, og það er nánast svarið við öllu sem kemur upp, þ.e. að ganga í Evrópusambandið.

Það er einnig mjög athyglisvert að rifja það upp að hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt í fyrirspurnum á Alþingi að framtíðargjaldmiðillinn sé að sjálfsögðu íslenska krónan. Í raun og veru kristallast það fyrir manni að ríkisstjórnin hefur enga stefnu í efnahagsmálum eða gjaldmiðilsmálum. Það er sú dapurlega staðreynd.

Ég hef leitt hugann dálítið að þessu öllu. Nú hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagt fram ákveðnar tillögur um hvernig þetta verði gert, þ.e. með því að gefa út bréf í erlendri mynt og reyna að selja þau, þannig að þeir sem mundu kaupa slík bréf hefðu þá trú á að krónan mundi ekki styrkjast, en þeir sem aftur á móti væru tilbúnir til að eiga íslensk bréf hefðu trú á að krónan mundi styrkjast inn í framtíðina. Þetta eru atriði sem við höfum lagt fram til umræðu. Það hefur svo sem ekki verið mikið fjallað um þau í þingsölum vegna þess að ekki hefur enn náðst að klára umræður um efnahagstillögur okkar sem voru kynntar fyrir rétt tæpu ári. Ég ætla að halda öllu því til haga sem við höfum verið að berjast við og horfum fram á. Hlutirnir eru ekki alltaf svart/hvítir.

Ég hefði talið heppilegra og eðlilegra að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði skipað þverpólitískan hóp eða nefnd sem hefði farið í gegnum gjaldeyrismálin og komið þá með tillögur í þingið um hvernig við gætum afnumið gjaldeyrishöftin af því að þau eru að sjálfsögðu slæm og við þurfum að losna við þau. Það hefði verið skynsamlegra að gera það. Sá ákveðni hópur hefði þá líka getað skilað inn tillögum eða hugmyndum um hvaða leiðir við gætum farið í gjaldmiðilsmálum í framtíðinni því að það er algerlega ómögulegt að búa við núverandi ástand. Við skulum rifja upp síðustu árin. Þegar raungengi krónunnar var allt of sterkt og innflutningurinn blómstraði og grunnatvinnuvegirnir, þ.e. útflutningsgreinarnar, löptu í rauninni dauðann úr skel ef ég má nota það orð. Krónan var allt of sterkt skráð, svo kom hrunið og í kjölfar efnahagshrunsins hrynur gjaldmiðillinn.

Við verðum líka að íhuga það hvernig við gengum í gegnum það á þeim tíma. Það kemur klárlega í ljós þegar rannsóknarskýrsla þingsins er lesin hvernig einstaka bankar og stofnanir soguðu til sín erlendan gjaldeyri og síðan var það markmiðið að hann þyrfti helst aðeins að falla ársfjórðungslega til að hækka eignir bankanna. Þetta eru hlutir sem við verðum að ræða af hreinskilni. Það er ekki þar með sagt og ég er ekki að halda því fram að þær tillögur sem ég tel líklegastar séu endilega þær bestu, alls ekki. Ég er ekki að halda því fram. En við þurfum hins vegar að ræða það hvað við teljum skynsamlegast að gera og taka þá tillit hvert til annars því að auðvitað gengur það ekki að menn tali um að eini möguleikinn sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Við verðum einnig að ræða af hreinskilni öll þau vandamál sem þar eru núna uppi og blasa við okkur í fréttum daglega hvernig einstaka ríki hafi staðið og önnur verið að greiða inn í björgunarsjóði. Við sjáum það í fréttum að sum ríki eru að fara með mál fyrir dómstóla, t.d. í Þýskalandi, til að kveða upp úr um hvort réttlætanlegt sé að láta einstaklinga eða íbúa Þýskalands greiða fyrir taprekstur annarra ríkja sem eru í vandræðum. Við verðum að fara yfir þessa hluti eins og þeir eru.

Maður hefur líka heyrt marga fræðimenn segja, sem hafa miklu meiri þekkingu á þessum málum en sá sem hér stendur, að hugsanlegt væri hægt að taka upp annan gjaldmiðil. Það er atriði sem við þurfum að ræða. Ef einhver metnaður væri í þessu hefði verið skynsamlegra fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að skipa nefnd sem fjallaði um þessi mál og við tækjum þá akkúrat þá umræðu á faglegum vettvangi.

Ég vil benda á að samkvæmt þessu er ekki hægt að búa við þessi skilyrði. Menn verða að svara þeim atriðum hvernig við stjórnum landinu, því að auðvitað snýr þetta fyrst og fremst að efnahagsstjórninni, það snýr fyrst og fremst að henni. Menn sem sjá það fyrir sér að vilja vera með krónuna áfram eins og hún hefur verið í þessu umhverfi verða að færa rök fyrir því. Við verðum að átta okkur á að það er alveg sama hvað þú tekur margar krónur, 1 milljón eða 100 milljónir, og þú ferð út í einhverja sjoppu úti í heimi en þú getur ekki einu sinni keypt eina pylsu. Menn verða að ræða þetta af sanngirni og heiðarleika til að reyna að komast áfram til þeirrar vegsemdar að ná tökum á þessu. Við sjáum núna hvað er að gerast og við verðum að fara í gegnum það og ræða hvernig við bregðumst við. Núna erum við að fara að hækka stýrivextina aftur til að bregðast við þessu. Er það eðlilegt? Þetta getur ekki verið eðlilegt umhverfi. Þetta eru atriði sem menn verða að ræða miklu frekar.

Auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um það að menn nái stjórn á efnahagsmálum landsins, þ.e. hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þessu. Það gefur augaleið að afkoman í ríkisfjármálunum ræður miklu um trúna á framtíðina og trú á gjaldmiðilinn. Nú erum við að reka ríkissjóð með miklum halla. Það hjálpar okkur töluvert eins og allir vita að við búum við tvöfalda kreppu eins og stundum er sagt. Bæði lentum við í efnahagshruni og síðan í gjaldeyrishruninu og menn verða að skoða það hvernig við komumst áfram en ekki vera alltaf að pexa og rexa um einhverja ákveðna hluti sem skila okkur ekkert áfram inn í framtíðina.

Nú er hallarekstur á ríkissjóði. Ég sé fyrir mér og ég hef lýst því margoft í þessum ræðustól hvernig við eigum í raun að vinna okkur út úr vandræðunum. Ég tel að við séum að fara þveröfuga leið með því að gera það sem við erum að gera í dag. Efnahagsstjórnin er náttúrlega algerlega í molum og við þurfum að fá hingað inn fjárfestingu, hagvöxt og neyslu. Við þurfum líka að nýta þær auðlindir sem þjóðin á því að við getum ekki verið að reka ríkissjóð í því ástandi eins og við gerum núna. Því miður bendir margt til þess að ríkissjóður ætli að fresta vandanum, taka á honum seinna og sé nánast búinn að gefast upp fyrir vandamálinu. Það er það sem maður heyrir í sambandi við fjárlögin, að menn séu jafnvel enn þá að hugsa um að fara í frekari skattahækkanir — það væri algert glapræði að mínu viti — í stað þess að nýta þær auðlindir sem við eigum.

Meðan við erum með einn sterkasta þorskstofn sem verið hefur við Íslandsstrendur í áratugi veiðum við eftir 20% aflareglu. Við erum að veiða 177 þúsund tonn þegar við gætum hæglega veitt í kringum 230–240 þúsund tonn, stofninn mundi halda áfram að vaxa fyrir því. Ég hef fært fyrir því margvísleg rök.

Ég spyr: Hvers konar aðferðafræði er þetta eiginlega? Stjórnarliðarnir eru mest uppteknir við að búa til óeiningu og stríð við grunnatvinnuvegina, t.d. sjávarútveginn, í stað þess að huga að því hvernig við getum búið til og aukið verðmætin og nýtt okkur þær aðstæður sem uppi eru. Sem betur fer er ástand þorskstofnsins þannig við gætum hæglega veitt meira en við gerum án þess að taka nokkra áhættu.

Svo koma þessar hjáróma raddir um að það verði að byggja þorskstofninn upp í það að hægt verði að veiða a.m.k. 300 þúsund tonn, 400 þúsund tonn eða guð má vita hvað. Þess vegna sé verið að veiða svo lítið í dag. Hvers konar stjórn er það á efnahagsmálum ef menn ætla að fara mjög bratt í að veiða og bæta við veiðiheimildum? Það þýðir auðvitað að markaðirnir munu ekki geta annað því. Við þurfum að byggja okkur upp stig af stigi og bæta hóflega við í hvert skipti. En þetta er ekki verið að ræða og skoða. Og þegar menn hafa verið að spyrja einstaka hv. þingmenn um hvort þeir væru tilbúnir að bæta við aflaheimildir þá hafa þeir tekið undir það en síðan þegar kemur að atkvæðagreiðslum, eins og gerðist síðasta haust þegar við lögðum til að þorskkvótinn yrði aukinn um 35 þúsund tonn einmitt til að ná tökum á efnahagsástandinu, þá var enginn vilji til þess. Svo mæta sumir þessara hv. þingmanna og koma fram í blöðum og fjölmiðlum og skilja bara ekkert í því, þegar þeir fara út á land og taka þar á móti bátum sem koma í land fullir af fiski eftir örfáar mínútur eða klukkutíma, af hverju ekki er bætt við meiri veiðiheimildum. En þeir voru fljótir að greiða atkvæði gegn því á sínum tíma. Þeir eru búnir að gleyma því og fréttamennirnir rifja það ekki upp hvers vegna þeir greiddu þá ekki atkvæði með því að bæta við veiðiheimildum til að búa til þá stöðu sem við þurfum í efnahagsmálunum. Þetta er grunnurinn að því að við getum haldið gjaldmiðlinum okkar þannig að einhver hafi trú á honum.

Mér finnst vera algjör uppgjöf í þessu með því að festa þetta til 2015 eins og hér er lagt til. Leiðin er ekki mörkuð hvernig við eigum að stíga þessi skref.

Ég hvet alla hv. þingmenn til að lesa umsögn sem kemur frá Kauphöllinni um málið sem er mjög athyglisverð. Þar er bent á að hægt væri að fara miklu skynsamlegri leið að þeirra mati. Ákveðnir aðilar hafa skrifað greinar í Vísbendingu ef ég man rétt og vitna í umsögnina. Það er mjög athyglisvert að lesa það þar sem þeir benda á að hægt væri að fara mjög minna íþyngjandi leið til að losa um gjaldeyrishöftin.

Það sem skín einnig í gegn eru áhyggjur meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar og minni hlutans líka, allra minni hlutanna, og einnig frá Kauphöllinni, af því hvort þetta ferli sé nógu gegnsætt þannig að jafnræðis sé gætt hvort heldur sem það er á milli einstaklinga eða fyrirtækja. Öll vitum við að ef fyrirtækjum er mismunað þá er það náttúrlega óþolandi og ólíðandi. Og það skín í gegnum álit allra þessara aðila, eins og ég segi hvort heldur sem það er meiri hluta nefndarinnar eða minni hlutanna, að menn hafa áhyggjur af þessu. Þeir hv. þingmenn sem um það fjalla hafa verulegar áhyggjur af því að með því að gera það með þeim hætti eins og lagt er til muni það geta haft áhrif á samkeppnisumhverfi fyrirtækja og einstaklinga.

Virðulegi forseti. Ég verð þó að segja að þó að ég muni að sjálfsögðu ekki styðja þetta mál óbreytt eins og það er, þá hefur það tekið ákveðnum breytingum í meðförum efnahags- og skattanefndar og það er vel því að fyrstu hugmyndir — og það er það sem vekur mann til umhugsunar, þegar frumvarpið var smíðað í upprunalegri mynd, í hvers konar ástandi við erum. Eins og ég rakti áðan í fyrri hluta ræðu minnar er alveg ótrúlegt að lesa um þær hugmyndir sem þar voru uppi.