139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu um það merkilega mál sem er til umræðu. Það eru nokkur atriði í málflutningi hans sem mér þætti ágætt að fara aðeins yfir, sérstaklega varðandi þá umræðu um að það sé aðeins ein lausn eða bara einn valmöguleiki, þ.e. höft eða evra.

Nú hefur þetta mál varðandi upptöku evrunnar verið rætt talsvert í þingsal frá því að ég kom inn á þing fyrir um tveimur árum síðan. Eins og ég hef skilið umræðuna þegar ég hef beint spurningum til bæði ráðherra ríkisstjórnarinnar og eins hv. formanns efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Helga Hjörvars, er talsvert í það að evran verði tekin upp hér á landi miðað við þær umræður sem áttu sér stað sl. vetur. Þegar ég beindi þeirri spurningu til hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra var svarið að það væru u.þ.b. 15 ár í að við mundum uppfylla skilyrði þess að taka upp evru. Á maður þá að skilja málflutning talsmanna stjórnarliða á þann veg að það séu þá 15 ár í viðbót af gjaldeyrishöftum?

Ég hef ekki heyrt neinn stjórnarliða taka þátt í umræðunni í þessari umferð málsins en mér er spurn hvort hv. þingmaður, sem virðist vera mjög vel inni í málinu, hafi einhverjar nánari upplýsingar um þetta.