139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sönn ánægja að eiga hér orðaskipti við frjálslynda framsóknarmenn. (Gripið fram í.) Það væri gaman að fá nánari útskýringar á þessari flokkun framsóknarmanna, bara til að maður skilji örugglega hvernig þingið er samsett.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram efnahagstillögur í nokkur skipti í þinginu. Ein af þeim tillögum sem var í fyrsta efnahagspakka okkar var sú að þá þegar fyrir tveimur árum síðan þegar tillagan var sett fram, hefði átt að koma á fót samráðsvettvangi allra stjórnmálaflokka með það að markmiði að ræða gjaldmiðilsmálin og ræða hvaða breytingar væru nauðsynlegar á gjaldmiðli okkar og skoða hvaða aðrir kostir væru í stöðunni. Því miður var sú tillaga okkar sjálfstæðismanna ekki samþykkt í þinginu og sú vinna hefur ekki farið fram heldur hafa ríkisstjórnarflokkarnir einblínt á evruleiðina og vakið falskar vonir um að það sé fljótleg lausn.

Af því hef ég miklar áhyggjur, sérstaklega í ljósi orða fyrrverandi þingmanns, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, í Kastljósi í vikunni, um að ríkisstjórnarsamstarfið sé beinlínis smíðað utan um Evrópusambandstillöguna og umsóknina, langar mig að fá fram afstöðu hv. þingmanns til þess hvort hann styðji tillöguna frá okkur sjálfstæðismönnum, sem því miður er orðin tveggja ára gömul. Hún hefði betur verið sett strax í farveg því að þá værum við kannski búin að ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu. Við þingmenn höfum sýnt það, m.a. fyrr í dag, að það er hægt að ná sameiginlegri niðurstöðu ef menn eru ekki of einstrengingslegir og horfa ekki bara í eina átt, til Brussel, eins og Samfylkingin gerir, og Vinstri grænir virðast því miður láta teyma sig með.