139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vitanlega þannig og það er löngu komið í ljós að þessi ríkisstjórn er smíðuð til að ganga leiðina til Evrópusambandsins. (UBK: Rétt, alveg rétt.) Það er alveg ljóst og hæstv. ráðherra staðfesti það hér. Það virðist hins vegar hafa gleymst að segja þingmönnum Vinstri grænna frá því. Það er þá gott að það er komið fram núna, (Gripið fram í.) það er þá komið í ljós. (Gripið fram í: … frjálslyndir eins og Framsóknarflokkurinn.)

Já, varðandi frjálslyndið verð ég aðeins að koma því aftur að að það hlýtur að vera þannig að við sem tökum jákvætt í það að skoða vandlega — svo við tölum nú varlega — það sem kínverskir fjárfestar vilja gera á Íslandi, hljótum að teljast frjálslyndir í þeim efnum. Og við sem viljum skoða hvaða gjaldmiðill hentar Íslandi, hvort sem það er bandaríkjadollari, kanadadollari, norsk króna, evra eða eitthvað annað, hljótum líka að vera frjálslyndir.

Varðandi fyrirspurnina um tillögur sjálfstæðismanna man ég ekki betur en að ég hafi lýst stuðningi og stutt þær þegar þær komu fram, alla vega hluta af þeim, ég man þær vitanlega ekki allar. Þessi hluti tillagnanna er þess eðlis að það er mjög vel hægt að styðja hann og við höfum talað í þá veru, framsóknarmenn, að þetta sé vinna sem fara eigi í. Það sé nauðsynlegt að gera þetta því að niðurstaðan getur vitanlega orðið sú að við viljum hafa íslensku krónuna áfram. Niðurstaðan getur líka orðið sú að við eigum að taka upp annan gjaldmiðil. En mér finnst að við getum ekki farið fram með þeim hætti að segja að einhver ein ákveðin tegund erlends gjaldmiðils sé betri en önnur, ekki síst þegar við sjáum hvers konar vandræði þessi gjaldmiðill, evran, á við að stríða þessa dagana þar sem hann berst í rauninni fyrir lífi sínu — það er best að orða það þannig. Auðvitað munu hin stóru ríki, Þýskaland og Frakkland, gera allt til að halda evrunni gangandi því að þeirra áhrif eru í gegnum þann gjaldmiðil.