139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir yfirgripsmikla og ágæta ræðu og ég tek undir með honum í því, og ég held að það sé mikilvægt að það komi fram fyrir þá sem hlusta, að við teljum ekki að þeir sem standa að þessu máli séu að því af mannvonskunni einni heldur sé þetta ákveðin hugmyndafræði sem birtist í frumvarpinu. En ég er áhugamaður um að afnema höftin, eins og hv. þingmaður, eða að minnsta kosti að létta á þeim hið fyrsta.

Hv. þingmaður nefndi það í lokaorðum sínum í ágætri ræðu hverjar forsendurnar væru fyrir því. Eru forsendurnar til staðar í dag til að aflétta höftunum nú þegar? Ég segi að þær séu ekki til staðar í dag. En gætu þær verið það ef ríkisstjórnin stundaði almennilega efnahagsstjórn og atvinnusköpun í landinu? Forsenda þess að létta af höftunum er væntanlega sú að við búum við öflugt efnahagslíf, efnahagskerfi og atvinnulíf. Er þá ekki ráðið að skipta um stefnu, að við búum þá við ríkisstjórn sem skapar þessa umgjörð? Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði, það stóð aldrei til að hafa gjaldeyrishöft til ársins 2015. Maður veltir því fyrir sér, í ljósi þess að menn hafa ítrekað framlengt höftin og núna á að gera það fram að áramótum 2015/2016, hvort menn hafi gefist upp fyrir verkefninu.

Mín spurning til hv. þingmanns er sú hvort við hefðum ekki getað, ef við hefðum staðið rétt að málum í atvinnusköpun og stjórn efnahagsmála, verið búin að skapa okkur þær aðstæður að geta nú með mjög markvissum hætti létt á höftunum. Eins og fram hefur komið hafa stjórnvöld þvert á móti verið að herða á þeim. Það hefur þýtt að m.a. heilu atvinnugreinarnar hafa aukið umsvif sín erlendis utan haftanna sem leiðir til þess að stærð efnahagskerfisins verður ekki eins mikil og hún gæti verið og stuðlar að veikari krónu.